
„Þetta er náttúrulega bara mjög ánægjulegt að við náðum í eitt stig. Þetta sýnir bara ákveðinn karakter að skora tvö mörk þegar það eru 5 mínútur eftir af leiknum. Við áttum þetta kannski ekki alveg skilið, Fjölnir voru sterkari en við í seinni hálfleik fannst mér.“ sagði Ian Jeffs þjálfari Þrótt R. eftir dramatískt 3-3 jafntefli við Fjölni í kvöld.
Lestu um leikinn: Fjölnir 3 - 3 Þróttur R.
Hvernig fannst þér frammistaðan vera í heild sinni?
„Ég var mjög ánægður með fyrri hálfleikinn fyrir utan fyrstu 50 sekúndurnar. Við spiluðum mjög vel og leystum þeirra pressu mjög vel. Það vantaði bara aðeins betri gæði í seinustu sendinguna og betri ákvörðunartöku í kringum vítateig. Allt hitt var samt mjög gott. En við vorum ekki tilbúnir í seinni hálfleik sem ég veit ekki ahverju er. Þeir bara keyrðu yfir okkur og voru sterkari en við.“
Þið fáið á ykkur mark eftir 50 sekúndur, hvað gerist í aðdragandanum að markinu?
„Við vorum að pressa hátt og einhverjir leikmenn fylgdu ekki alveg nógu vel í pressunni og þeir spiluðu bara í gegnum okkur. Þetta var alltof einfalt. Við vorum samt betri en þeir heilt yfir í fyrri hálfleik fannst mér. En það var önnur saga í seinni hálfleik. Við erum komnir á blað en við þurfum samt sem áður að fara yfir leikinn og læra af þessu“
Þú hlýtur að vera ánægður með innkomu Ágústar og Stefáns sem gera jöfnunarmarkið.
„Já auðvitað, ég er bara mjög ánægður með þá. Það eru líka leikmenn á bekknum sem skipta máli í þessum leikjum. Maður vonast bara eftir því að leikmenn sem koma inn á af bekknum koma með auka kraft og hugarfar sem getur breytt leikjum. Mínir varamenn gerðu svo sannarlega það.“
Breytir það einhverju hvernig þið leggið upp leikinn vitandi það að þið eruð að fara að spila inni í Egilshöllinni?
„Nei alls ekki. Okkur líður mjög vel hér, við höfum æft hérna einu sinni í viku í allan vetur og við vorum bara ánægðir með það að spila hér. Tvö lið sem vilja spila fótbolta vilja auðvitað spila frekar á gervigrasi en á ónýtum grasvelli.“ voru lokaorð Ian Jeffs þjálfara Þróttar sem stal stigi af Fjölni í kvöld eftir geggjaðan leik.
Viðtalið má finna í spilaranum hér að ofan.