banner
   fim 11. maí 2023 08:54
Elvar Geir Magnússon
Ratcliffe sagður vera að vinna baráttuna um Man Utd
Sir Jim Ratcliffe.
Sir Jim Ratcliffe.
Mynd: Getty Images
Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe er talinn líklegastur til að verða næsti eigandi Manchester United. The Sun segir að Glazer fjölskyldan sé spenntust fyrir tilboði hans.

Síðustu mánuði hefur verið mikið fjallað um tveggja hesta kapphlaup Ratcliffe við Katarann Sjeik Jassim Bin Hamad Al Thani um að kaupa enska stórliðið.

Tilboð Ratcliffe hljóðar upp á 5 milljarða punda en Glazerarnir halda þá áfram að eiga hlut í félaginu. Sjeik Jassim bauð hærri upphæð en hann vill eignast félagið að öllu leyti.

Ef Ratcliffe eignast United þá verður það vonbrigði fyrir stóran hóp stuðningsmanna sem vonaðist eftir því að losna algjörlega við Glazer fjölskylduna frá félaginu.

Ratcliffe, sem er sjötugur, er einn mesti auðkýfingur Breta og þá er hann stærsti einstaki landeigandi á Íslandi. Hann á Grímsstaði á Fjöllum og laxveiðijarðir á norð-austurlandi.

Það eru mörg verkefni framundan hjá Manchester United. Nauðsynlega þarf að styrkja leikmannahópinn, endurbóta er þörf á Old Trafford og þá er æfingasvæðið orðið úrelt.
Athugasemdir
banner
banner
banner