Stefano Pioli, þjálfari Milan, segir að leikmenn hafi verið vonsviknir með frammistöðuna í 2-0 tapinu gegn Inter í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.
Inter skoraði tvö mörk með þriggja mínútna millibili snemma leiks og dugði það til sigurs.
Milan var hættulegra í síðari hálfleiknum en tókst ekki að nýta færin sín.
„Svolítið gróft að orða það þannig,“ sagði Pioli er fréttamaður sagði að leikmenn Milan voru óþekkjanlegir á vellinum í gær.
„Staðreyndin er sú að Inter spilaði betur í fyrri hálfleik og skoruðu tvö en Milan var betra í seinni og tókst ekki að skora. Svona er fótboltinn á þessu stigi. Inter var með meiri gæði og skilvirkari í fyrri hálfleiknum á meðan við gerðum mörg mistök.“
„Fram að sjöundu mínútu hafði Inter ekki komið nálægt vítateignum okkar en svo skora þeir úr fyrsta horninu. Við áttum að vera einbeittari. Við vildum önnur úrslit en við verðum að halda áfram að trúa því eitt atvik getur breytt öllu í seinni leiknum.“
„Planið var að vera þéttir, ákafir og grimmir, en Inter gerði betur í 50-50 boltunum og það hjálpaði þeim að taka stjórn á leiknum. Þeir gerðu líka vel að klára þessi færi og það gerði okkur erfitt fyrir bæði á taktískan og andlegan hátt. Ég sá góð viðbrögð og það er það sem við verðum að byggja ofan á í næsta leik.“
„Strákarnir eru meðvitaður um að þetta var ekki frammistaðan né úrslitin sem við vildum og þeir eru vonsviknir, en við vitum að við fáum tækifæri til að snúa þessu okkur í vil.“
Rafael Leao, stjörnuleikmaður Milan, var ekki með vegna meiðsla, en Pioli vonast til að hann verði með í næsta leik.
„Sjáum til. Hann var ekki í neinu standi til að spila en það eru sex dagar fram að næsta leik og vonandi verður hann klár þá,“ sagði Pioli.
Athugasemdir