Arnar Grétarsson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við KA og mun því stýra liðinu áfram.
Háværar sögusagnir voru í gangi um að Arnar myndi aðeins stýra Akureyrarliðinu út tímabilið en þær reyndust ekki réttar.
Arnar var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær þar sem hann ræddi tíðindin.
„KA er spennandi félag og ég var ekki lengi að hugsa um það þegar það kom upp. En ég var svo sem ekki mikið að velta því fyrir mér að fara lengra en þessa þrjá og hálfan mánuð, ég ætlaði að fara með opnum huga og sjá hvernig hlutirnir yrðu," sagði Arnar.
„Svo þegar þú ferð, kynnist fólkinu og ferð af stað, þá annað hvort nærðu tengingu við það fólk eða ekki. Fyrir mig hefur það alltaf skipt rosalega miklu máli, umverfið sem þú ert að vinna í - að þú hafir gaman að því og þú hafir gaman að því að fara í vinnuna. Það er svo sannarlega þannig á Akureyri, þetta er virkilega skemmtilegt umhverfi."
„Það er skemmtilegt fólk sem er uppi á skrifstofu á hverjum degi, það er mikill samgangur og mikið verið að spjalla og annað. Svo er hópurinn skemmtilegur, mér finnst vera töluvert 'potential' í hópnum. Það er mikið af ungum og efnilegum strákum í liðinu sem eru með hæfileika til að taka næsta skref."
Arnari tókst að stýra KA frá fallsvæðinu og er liðið eins og er í sjöunda sæti með 21 stig.
Aðstöðuleysi kom á óvart
Arnar segir að aðstöðuleysi KA hafi komið sér mjög á óvart þegar hann tók við sem þjálfari liðsins.
„KA er alvöru félag og ég gerði ráð fyrir því að félagið væri með góða aðstöðu. Þetta er lið sem hefur orðið Íslandsmeistari í fótbolta og Íslands- og bikarmeistari í handbolta, margfaldir Íslandsmeistarar í blaki. Maður bjóst við því að það væri góð aðstaða fyrir fótboltann, en það er svolítið langur vegur frá. Það þyrfti að breytast sem fyrst," sagði Arnar.
„Greifavöllurinn er orðinn barns síns tíma. Það er ekkert búið að skipta um undirlag í langan tíma og völlurinn drenast ekki. Þú ert líka á Akureyri þar sem þú ert kannski með snjó í 4-6 mánuði á ári. Ég held að það sé á hreinu að veðurfarið hérna sé ekki kjörið fyrir venjulegt gras."
Arnar vill fá gervigrasvelli og fljóðljós svo að hægt sé að bæta fótboltann á Íslandi. Hann telur að það myndi breyta miklu fyrir KA að færa sig alfarið á gervigras.
Flytur á Akureyri
Arnar ætlar sér ekki að vera að flakka mikið á milli höfuðborgarinnar og Akureyri. Hann mun flytja á Akureyri í byrjun næsta árs.
„Á þessum þremur mánuðum hef ég verið fyrir norðan. Eftir að ég var í Belgíu að þjálfa, þá breytti ég því að ef við erum að spila laugardag og laugardag, þá var ég alltaf með frí daginn eftir leik og æfðum næsta dag. Ég reyni þá að fara yfir leikinn, klippa leikinn og mynda mér ákveðnar skoðanir."
„Annað sem mér finnst líka gott við þetta. Það er mjög algengt að menn mæti daginn eftir, taki endurheimtaræfingu og svo frí á öðrum degi. Ef þú gerir þetta hins vegar, ert með frí daginn eftir, tekur endurheimtaræfingu á öðrum degi og tekur svo alvöru æfingu á þriðja degi, þá eru menn ekki með frí daginn fyrir. Eftir einn frídag ertu aðeins ryðgaður. Mér finnst það vera betra."
„Ástæðan fyrir því að ég er að segja þetta er að ef við erum að spila í bænum og erum með frí daginn eftir, þá hef ég verið eftir og farið svo til baka á æfingadeginum. Annars er ég bara fyrir norðan. Það er líka planið núna."
„Eftir að mótið klárast, þá er planið að ég verði hér (í Reykjavík) fram að áramótum og svo í byrjun árs 2021, að þá flyt ég norður. Ég verð fyrir norðan nema að það henti þannig að við erum að spila fyrir sunnan og það sé frí daginn eftir, að þá fái maður að taka dag með fjölskyldunni eða eitthvað slíkt. Ég held að það gangi ekki að skjótast fram og til baka," sagði Arnar.
Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
Sjá einnig:
KA stefnir á að spila heimaleiki sína á Dalvík.
Athugasemdir