Seinni leikirnir í átta-liða úrslitum Meistaradeildarinnar fara fram í þessari viku.
Liverpool mætir Real Madrid á Anfield en er 3-1 undir eftir sannfærandi tap á æfingavelli Real í síðustu viku.
Kristján Atli Ragnarsson, stuðningsmaður Liverpool, var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær þar sem hann ræddi um leikina í átta-liða úrslitunum.
„Mínir menn eru bara heppnir að vera með í einvíginu eftir þennan leik," sagði Kristján Atli.
„Þetta útivallarmark gefur von; 2-0 sigur á Anfield er ekkert óhugsandi, langt því frá. Á pappír er þetta einvígi opið. Þetta átti að vera stærra tap, þetta var slæmt fyrir allan peninginn."
„Ég hef oft sagt við ykkur að ég þigg alltaf að þurfa að vinna leik á Anfield til að komast í undanúrslit í Meistaradeildinni. Við höfum saknað áhorfenda á Anfield í deildinni en ég hugsa að við söknum þeirra meira á miðvikudaginn en í öðrum leikjum. Það verða tíu lögregluverðir og boltastrákar á vellinum. Það er öll stemningin."
„Liverpool gerði grundvallarmistök og mér fannst Klopp gera taktísk mistök. Zidane las hann; Zidane man hvernig þeir unnu Liverpool í úrslitunum fyrir þremur árum. Öll pressa og allt sem Liverpool var að reyna, það var ekki að ganga upp. Ég tippa á Real en ég afskrifa aldrei mína menn."
Seinni leikur Liverpool og Real Madrid er á miðvikudaginn.
Hægt er að hlusta á alla umræðuna í útvarpsþættinum hér að neðan.
Athugasemdir