
„Ég get ímyndað mér að þetta sé eitt af þessum viðtölum þar sem þú getur skrifað að mér finnist við eiga að hafa unnið en svo skrifar þú líka að hinum þjálfaranum finnist að þeir hafi átti að vinna. Jafntefli var sanngjörn niðurstaða fyrir bæði lið í mjög jöfnum og lokuðum leik“ Sagði Christopher Brazell þjálfari Gróttu um sín fyrstu viðbrögð eftir 0-0 jafntefli hans manna gegn Grindavík á Stakkavíkurvellinum í Grindavík fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: Grindavík 0 - 0 Grótta
Vallaraðstæður á grasvellinum í Grindavík voru eins og á svo mörgum öðrum völlum erfiðar. Hvernig fannst Chris völlurinn og fannst honum hann hafa mikil áhrif á leikinn og jafnvel áhrif á hvernig hann setti hann upp?
„Ég er mjög lélegur í fótbolta þannig að ég get ekkert sagt um hvaða áhrif hann hafði á leikmenn á annan hátt en hvernig hann lítur út. Mér fannst völlurinn bara líta ágætlega út, auðvitað ekki fullkominn en hrós á starfsmenn vallarins sem gerðu hann leikhæfann.“
Tvö jafntefli í fyrstu tveimur leikjum sumarsins er uppskera Gróttu það sem af er. Niðurstaða sem Chris er ánægður með?
„Ánægður er kannski ekki rétta orðið og liðið mitt myndi ekki njóta þess að heyra mig segja það. Ég veit að það er klisja en við erum alltaf að leitast eftir því að verða betri og þá kannski sérstaklega eftir að hafa ekki unnið leiki. Ég ætla því ekki að segja að ég sé ánægður því það endurspeglar ekki þær væntingar sem ég hef til liðsins.“
Athugasemdir