
„Þetta var fyrst og fremst hrikalega sætt. Þetta var ekki góður leikur hjá okkur. Fínir kaflar inni á milli en í heildinni var þetta ekki gott hjá okkur. Hrikalega sætt að skora úr föstu leikatriði í lokinn og vinna leikinn. Þetta var vel útfært fast leikatriði." Segir Magnús Már Einarsson eftir sterkan 1-0 sigur sinna manna gegn Þór í Lengjudeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 0 Þór
Leikurinn fór fram á Framvellinum í kvöld vegna framkvæmda á Heimavelli Aftureldingar.
„Frábært hjá Fram að lána okkur völlinn. Hér eru geggjaðar aðstæður frábær stúka og frábær völlur. Við hefðum viljað bjóða uppá betri fótbolta hér í kvöld. Varnarleikurinn var fínn en það vantaði upp á sköpunarmáttinn. Við höfðum trú allan tímann og það er það sem skilaði þessum sigri heim."
Undarlegasta atvik sumarsins hingað til átti sér stað í leiknum þegar dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu fyrir Þór en dró það svo seinna til baka.
„Ég stóð hérna 30 metrum frá og var ekki í góðum vinkli en minn maður segir að hann hafi tekið boltann á undan. Miðað við hvað dómarinn að lokum dæmir þá virðist hann vera sammála því. Ég skil Þórsarana að vera brjálaðir vegna þess að þeir halda að þeir séu að fá víti en svo er það tekið af þeim.
Athugasemdir