Kevin de Bruyne, miðjumaður Englandsmeistara Manchester City, var mjög svekktur eftir markalaust jafntefli gegn FC Kaupmannahöfn í Danmörku í gær.
Skagamennirnir Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson léku með danska félaginu í leiknum, en þetta voru vægast sagt óvænt úrslit. Það hafði auðvitað mikil áhrif að Sergio Gomez, leikmaður Man City, fékk að líta rauða spjaldið í fyrri hálfleiknum.
De Bruyne var harðorður eftir leik og sagði FCK spila leiðinlegan fótbolta.
„Þeir spiluðu ellefu gegn tíu í klukkutíma og ég hélt að þeir vildu fá meira út úr leiknum en greinilega ekki," sagði De Bruyne pirraður eftir leikinn.
FCK er á botni riðilsins með tvö stig eftir fjóra leiki á meðan City er með tíu stig og búið að tryggja sig áfram í 16-liða úrslitin.
Athugasemdir