Víkingur Reykjavík hefur fengið ansi harða refsingu frá KSÍ út af látum stuðningsmanna félagsins á bikarúrslitaleiknum í byrjun þessa mánaðar.
Sjálfboðaliði á leiknum steig fram í viðtali við Morgunblaðið þar sem hann lýsti því að framkoma stuðningsmanna Víkings hefði verið til skammar. Hann sagði að rusl og svívirðingar hefðu flogið yfir gæsluna á meðan leiknum stóð.
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í gær var fyrir skýrsla frá eftirlitsmanni KSÍ á úrslitaleiknum og fékkst sú niðurstaða að Víkingur fær 200 þúsund króna sekt og FH fær 50 þúsund króna sekt. Þá fær Víkingur heimaleikjabann í einn leik og gildir það í öllum keppnum á vegum KSÍ.
„Það er mat aga- og úrskurðarnefndar að þau atvik sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns í framangreindum bikarúrslitaleik og varða að mestu framkomu áhorfenda og stuðningsfólks, hafi verið vítaverð og hættuleg gagnvart leikmönnum, dómurum, þjálfurum og öðrum," segir í dómnum.
Um dóm Víkinga segir: „Með tilliti til fjölda þeirra vítaverðu og hættulegu atvika sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns og varða áhorfendur Víkings R. þykir nefndinni rétt að sekta knattspyrnudeild Víkings R. um kr. 200.000,- sem er hámarkssekt samkvæmt grein 12.9.d. Jafnframt er það mat aga- og úrskurðarnefndar, í ljósi alvarleika þeirra brota sem lýst er í skýrslu eftirlitsmanns, að rétt sé að úrskurða knattspyrnulið Víkings R. í mfl. karla í heimaleikjabann sem nemur 1 leik í keppnum á vegum KSÍ. Þannig verði knattspyrnuliði félagsins í mfl. karla gert að leika næsta heimaleik sinn í keppnum á vegum KSÍ á hlutlausum velli."
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net þá ætlar Víkingur að áfrýja þessum dóm.
Hægt er að lesa dóminn í heild sinni hérna.
Athugasemdir