Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 13. janúar 2023 10:00
Elvar Geir Magnússon
Mourinho ósáttur: Fólk má baula á liðið eða úrslitin, en ekki á einstakling
Zaniolo og Mourinho.
Zaniolo og Mourinho.
Mynd: Getty Images
Roma vann 1-0 sigur gegn Genoa í ítalska bikarnum í gær. Athygli vakti að stuðningsmenn Roma bauluðu á leikmann sinn, Nicolo Zaniolo, þegar hann var tekinn af velli seint í leiknum.

Óhætt er að segja að Jose Mourinho, stjóri Roma, hafi ekki verið ánægður með hegðun áhorfenda.

„Mér þótti leiðinlegt að heyra baulað á Zaniolo. Ég lærði það ungur að þú getur ekki gert meira en þitt allra besta. Stuðningsmenn mega baula á liðið, úrslitin eða hvað sem þeir vilja. En þeir eiga ekki að baula á einstakling," sagði Mourinho.

„Mín saga í Róm er stutt en vonandi hlustar fólk á mig. Ekki baula á leikmenn sem eru að gefa allt sitt í verkefnið."

Zaniolo er 23 ára framherji sem á aðeins 18 mánuði eftir af samningi sínum við Roma. Hann hefur oft verið orðaður við Juventus og viðræður um nýjan samning við Roma virðast ganga brösuglega.

Margir stuðningsmenn Roma eru óánægðir með hvað þessi hæfileikaríki leikmaður hefur lítið náð að blómstra. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn en á þessu tímabili hefur hann spilað sextán leiki, skorað tvö mörk og átt þrjár stoðsendingar.

Oft er það lokahnykkurinn sem bregst hjá Zaniolo, hann sýnir frábær tilþrif en tekur svo ranga ákvörðun. Það hefur pirrað marga í stúkunni.
Athugasemdir
banner
banner