Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   mán 13. júlí 2015 13:00
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Freyr Alexandersson: Ætlum að safna stigum í júlí
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verður hart barist á Leiknisvelli.
Það verður hart barist á Leiknisvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Það verður hart barist á Ghetto ground í kvöld þegar Leiknir og Keflavík eigast við klukkan 19:15. Um er að ræða sannkallaðan sex stiga leik í fallbaráttunni, Leiknir er með 9 stig í níunda sæti en Keflavík í neðsta sæti með 4 stig.

Heimavöllurinn hefur ekki reynst eins drjúgur og Leiknismenn vonuðust eftir en Keflavík hefur ekki fengið stig á útivöllum.

„Okkur hlakkar mikið til að spila við Keflavík á okkar heimavelli. Það er gríðarleg tilhlökkun. Það hefur verið langt hlé á mótinu fyrir okkur sem erum ekki í Evrópukeppni eða bikarnun. Við getum ekki beðið eftir því að fara út á völlinn í kvöld," segir Freyr Alexandersson, annar þjálfara Leiknis.

Síðasti sigurleikur Leiknis kom 26. maí en eftir góða byrjun hafa nýliðarnir sogast ofan í fallbaráttuna.

„Okkur hungrar í sigur. Við hugsum bara um okkur sjálfa og erum ekki mikið að spá í því hvað Keflvíkingarnir eru að gera. Okkur langar til að vinna og finna sigurtilfinninguna. Það drífur okkur áfram dag frá degi. Æfingarnar upp á síðkastið hafa verið hrikalega góðar, andinn í hópnum er góður og það hefur myndast tilhlökkun fyrir því að komast aftur inn á völlinn. Við fáum ekki nema þrjá leiki í júlí og við ætlum að njóta þeirra allra."

Freyr telur að sjálfstraustið í leikmannahópnum hafi ekki beðið hnekki þrátt fyrir að stigin hafi látið á sér standa.

„Við erum á góðum stað, menn eru hugrakkir og hungraðir. Við vissum að við myndum lenda í brekkum í 22 leikja móti og í fyrsta sinn í efstu deild. Júnímánuður var ekki góður stigalega en frammistaðan var ágæt og ekkert til að láta hafa áhrif á sjálfstraustið. Nú er bara næsti leikur og við ætlum að safna stigum í júlí."

Eyjólfur Tómasson, aðalmarkvörður Leiknis, er ekki með í kvöld þar sem hann tekur út leikbann eftir rauða spjaldið í 1-0 tapinu gegn KR. Varamarkvörðurinn Arnar Freyr Ólafsson verður í rammanum í sínum fyrsta alvöru leik í efstu deild.

Freyr býst við veislu í kvöld.

„Völlurinn lítur vel út. Það er úði og logn. Leiknisvöllur er skemmtilegur staður til að vera á og við erum með skemmtilegasta stuðningsmannahóp landsins. Allir geta skemmt sér í kvöld. Þetta verður algjör veisla og svo eru tvö góð fótboltalið sem ætla að takast hart á um stigin þrjú," segir Freyr.

Það eru tveir leikir í Pepsi-deildinni í kvöld og verða þeir að sjálfsögðu báðir í beinum textalýsingum hér á Fótbolta.net
19:15 Leiknir R.-Keflavík (Leiknisvöllur)
20:00 Breiðablik-Fjölnir (Kópavogsvöllur)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner