Búast við því að Van Dijk geri nýjan samning - Arsenal vill Cunha - Akliouche meðal leikmanna á blaði City
   þri 13. september 2016 12:19
Elvar Geir Magnússon
Víglundur Páll: Þetta eru fáránlegar ásakanir
Víglundur Páll Einarsson.
Víglundur Páll Einarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hanna Símonardóttir
„Ég hlæ bara að þessu," segir Víglundur Páll Einarsson þjálfari Fjarðabyggðar um þær ásakanir að markvörður liðsins, Uros Poljanec, hafi haft óhreint mjöl í pokahorninu í 1-4 tapi gegn KA í Inkasso-deildinni um helgina.

Poljanec gerði ótrúleg mistök þegar KA komst í 3-1 í leiknum. Eins og fram kom í Twitter-pakkanum sem við birtum í gær hafa einhverjir sakað hann um að hafa verið að hagræða úrslitum.

Smelltu hér til að sjá markið umtalaða

„Mér finnst þetta fáránlegar ásakanir. Það eru ekki margir aðilar sem eru að kasta þessu fram. Ég veit alveg hvernig þetta er," segir Víglundur sem er sannfærður um að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað.

„Ég held að þetta sé síðasti maðurinn sem er að standa í hagræðingu úrslita. Það eru alls engar grunsemdir hjá okkur. Hann varði helling af skotum í leiknum. Þó hann hafi gert afdrifarík mistök á vondum tímapunkti í leiknum grunum við hann ekki um svik og pretti."

„Við búum í heimi þar sem þessi veðmálaheimur er til staðar og öll þessi umræða er í kringum þetta. Um leið og menn gera svona mistök er allt bendlað við svik, þannig er það bara. Sérstaklega ef markvörður gerir mistök eru menn fljótir að klína þessu á svindl."

Fjarðabyggð er í erfiðri stöðu í deildinni, situr í fallsæti með 17 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. Víglundur vonar að Poljanec sýni frammistöður í lokaleikjum tímabilsins sem hjálpi liðinu að halda sæti sínu.

„Við vonum að hann sýni mönnum og sanni að þessi umræða er algjört kjaftæði. Þetta eflir hann vonandi," segir Víglundur Páll Einarsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner