banner
   sun 13. nóvember 2022 20:16
Brynjar Ingi Erluson
Ten Hag: Megum ekki láta þetta gerast
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Erik Ten Hag, stjóri Manchester United, getur gengið sáttur inn í HM-pásuna eftir að lið hans vann Fulham, 2-1, í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

United skapaði sér mörg góð færi í leiknum og skoraði Christian Eriksen úr einu slíku í fyrri hálfleiknum.

Liðið hefði hæglega getað bætt við fleiri mörkum en í stað þess tókst Fulham að jafna metin þegar klukkutími var búinn af leiknum.

United hélt áfram að pressa og náði inn marki undir lokin í gegnum Alejandro Garnacho. Ten Hag segist ánægður með framlagið í heild sinni en það sé enn svigrúm fyrir bætingar.

„Síðustu vikuna höfum við verið með góða kosti og fengið varamenn sem hafa hjálpað mikið. Ég er ánægður með þennan sterka og mikilvæga sigur,

„Í byrjun síðari hálfleik fengum við stórt tækifæri til að gera út um leikinn. Það hefði verið eðlilegt ef við værum 3-1 yfir í hálfleik ef við byggjum þetta á færunum sem við fengum, en við skoruðum ekki og svo kom Fulham inn í leikinn. Þeir voru með orku og dýnamík og ef við viljum verða virkilega góðir þá megum við ekki láta þetta gerast.“

„Þegar þú ert 1-0 yfir og þú ert að spila á útivelli þá á það ekki að vera mögulegt að allur hægri vængurinn sé opinn,“
sagði Ten Hag.

Garnacho, sem er 18 ára gamall, skoraði annað mark sitt á tímabilinu en hann var spurður út í sjálfstraustið á unga leikmanninum og hvort þessi smá hroki sé ekki að hjálpa honum á vellinum.

„Þetta er góður hæfileiki sem hann er með. Þetta snýst allt um að finna jafnvægi. Hann getur staðið sig vel í krefjandi aðstæðum og í dag kom hann inn og spilaði eins og hann gerði á fimmtudag.“

United hefur spilað vel undir Ten Hag á tímabilinu og sér hann hlutirnir séu að breytast.

„Við erum komnir með grunninn. Við erum á leið í rétta átt og menningin hefur breyst. Viðhorfið er breytt og það er gott, svo höfum við bætt okkur líka. Hugarfarið fer batnandi eins og þú sást með sigurmarkinu í dag.“

„Við erum núna sameinaðir og höfum samheldnina ef ég tala um búningsklefann, þjálfaraliðið, stjórnarmenn, allt félagið og stuðningsmennina. Ég er mjög ánægðir með alla þá þróun sem hefur átt sér stað,“
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner