„Það breytist margt þegar við missum mann út af þannig að eðlilega verður róðurinn aðeins þyngri eftir það. En það var ákveðið kæruleysi og værukærð í varnarleiknum sem var ekki boðlegt sama hvort við séum tíu eða ellefu. “ Svaraði Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK um hvað hefði klikkað í 4-0 tapi HK gegn ÍA í Kórnum í dag.
Lestu um leikinn: HK 0 - 4 ÍA
HK missti mann af velli á 41, mínútu fyrri hálfleiks þegar þegar Þorsteinn Aron Antonsson fékk að líta beint rautt spjald fyrir að ræna upplögðu marktækifæri sem aftasti varnarmaður. Staðan þó markalaus í hálfleik en það tók Skagamenn aðeins sjö mínútur að komast yfir í þeim seinni gegn tíu leikmönnum HK. Sló það liðið út af laginu að fá mark á sig svona snemma í síðari hálfleik?
„Það er bara erfitt að vera manni færri og að fá mark á sig svona snemma á svona döpru augnabliki af okkar hálfu er erfitt.“
En eins og áður sagði var markalaust í hálfleik og framan af fyrri hálfleik var fátt sem benti til þess að leikurinn yrði markaleikur sem slíkur. Hvað tekur Ómar jákvætt út úr leiknum?
„Fyrri hálfleikurinn var jafn og nokkurn vegin eins og ég bjóst við að hann yrði. Þar fannst mér fín holning á liðinu í fyrri hálfleik og menn bara að gera nokkuð vel og gera það sem við lögðum upp með. Við eigum samt að gera betur en við gerðum í seinni hálfleik.“
Sagði Ómar Ingi en allt viðtalið má sjá hér að ofan
Athugasemdir