Evrópska fótboltasambandið, UEFA, hefur staðfest að þjóðverjinn Felix Zwayer muni dæma úrslitaleik Evrópudeildarinnar milli Tottenham og Man Utd. Liðin mætast í Bilbao miðvikudaginn 21. maí.
Zwayer dæmdi síðast seinni leik PSG og Arsenal í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Hann dæmdi einnig m.a. undanúrslitaleik milli Englands og Hollands á EM síðasta sumar.
Hann er dómari í þýsku deildinni en hann er hvað þekktastur fyrir að hafa verið viðriðinn hagræðingu úrslita árið 2005. Hann samþykkti 250 punda mútur frá kollega sínum Robert Hoyzer. Zwayer var dæmdur í sex mánaða bann á meðan Hoyzer var dæmdur í tæplega tveggja og hálfs árs fangelsi og lífstíðarbann frá fótbolta.
Þjóðverjinn hefur dæmt 685 leiki á hæsta stigi, einn þeirra var leikur Bayern og Dortmund árið 2021. Hann dæmdi víti á Dortmund þegar boltinn fór í hönd Mats Hummels. Jude Bellingham, þáverandi leikmaður Dortmund, minntist á fortíð dómarans í viðtali eftir leikinn.
„Þú lætur dómara sem hefur hagrætt úrslitum áður dæma stærsta leikinn í Þýskalandi. Við hverju býstu?" Sagði Bellingham.
Athugasemdir