
Stjarnan tapaði í kvöld 1-3 fyrir Tindastól í framlengdum leik og datt þar með út úr Mjólkurbikarnum. Jóhannes Karl var að vonum svekktur að leikslokum.
„Mjög svo, ekki það sem við ætluðum okkur og bara heilt yfir vantar bara að skapa færi. Tindastólsstelpurnar eru feykilega góðar og verjast vel og í rauninni er það það sem hreinlega vantar upp á hjá okkur. Meiri gæði á síðasta þriðjung."
Lestu um leikinn: Stjarnan 1 - 3 Tindastóll
„Við vorum að koma okkur vel upp völlinn og láta boltann ganga vel en við erum hinsvegar ekki að ná að búa neitt til á síðasta þriðjungi í heildina erum við ekki að fá mikið af færum," sagði Jóhannes Karl.
Það vakti athygli að sjö breytingar voru gerðar á liði Stjörnunnar frá síðasta leik. Jóhannes sagði breytingarnar eiga eðlilegar skýringar.
„Við erum náttúrulega bara með breiðan og flottan hóp og spiluðum grasleik við FH á föstudaginn og fáum litla pásu á milli þannig við vildum fá bara ferskar fætur inn í þetta og við erum bara með það marga flotta leikmenn að þessar breytingar voru allar ósköp eðlilegar," sagði Jóhannes Karl.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.