Það tók markadrottninguna Söndru María Jessen fimm umferðir að komast á blað í Bestu deildinni í sumar, en hún gerði það með stæl núna á dögunum.
Hún skoraði nefnilega þrennu gegn FHL og er sterkasti leikmaður umferðarinnar í boði Steypustöðvarinnar.
Hún skoraði nefnilega þrennu gegn FHL og er sterkasti leikmaður umferðarinnar í boði Steypustöðvarinnar.
„Langbest á vellinum, Skorar þrennu og hefði geta skorað fleiri. Hélt boltanum mjög vel og var á allt öðru leveli en aðrir á vellinum," skrifaði Fannar Bjarki Pétursson í skýrslu sinni frá leiknum.
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, talaði um tómatsósuáhrif í viðtali við Vísi eftir leikinn.
„Tómatsósuáhrifin hjá Söndru greinilega. Það bara frussaðist þegar lokið fór af. Ég meina Sandra veit að það er alveg frábært að hún skoraði þrjú. Hún hefði örugglega getað gert þrjú í viðbót í dag. Ég er ánægður með hana. Ég er ánægður með liðið að hafa skapað svona mörg færi á móti hörku kröftugu og öflugu liði FHL og ég veit það styttist gríðarlega í að þau nái í sín fyrstu stig í þessari deild," sagði Jóhann Kristinn.
Sandra María, sem er fædd árið 1995, er án efa einn besti leikmaður deildarinnar en hún var valin best í fyrra eftir að hafa skorað 22 mörk í 23 leikjum.
Hún er ein af fáum leikmönnum sem kemur til með að fara á EM í sumar en hún hefur verið fastamaður í landsliðinu í síðustu verkefnum.
Athugasemdir