Klukkan 16:00 á morgun hefst leikur Flora Tallinn og Víkings í 3. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni. Staðan í einvíginu er jöfn eftir fyrri leikinn á Víkingsvelli og ljóst að sigurliðið á morgun fer í umspil um sæti í riðlakeppninni.
Fótbolti.net ræddi við Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Víkings, rétt áður en liðið hélt á lokaæfingu sína fyrir leikinn mikilvæga.
Fótbolti.net ræddi við Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Víkings, rétt áður en liðið hélt á lokaæfingu sína fyrir leikinn mikilvæga.
„Leikurinn leggst mjög vel í mig. Við hefðum getað farið út í þennan leik með aðeins betri stöðu, en við vorum svo sem í verri stöðu fyrir útileikinn gegn Egnatia í síðustu umferð. Við berum auðvitað virðingu fyrir Flora, en það var ekkert í þeirra leik sem mér fannst við eiga að vera hræddir við. Við þurfum að halda okkar í áherslur og skerpa á nokkrum varnarfærslum og þessháttar. Annars er uppleggið bara að vera fastir fyrir og ætlum ekki að henda þessu frá okkur með einhverri þvælu. Við viljum spila ekta Víkingsleik, vera massífir, við munum alltaf fá færi," segir Arnar.
„Við erum með ótrúlega tölfræði í þessum Evrópuleikjum og eiginlega fáránlegt að við séum bara búnir að gera fjögur mörk. Við erum eiginlega með svipaða tölfræði og við erum með í Bestu deildinni og það er ekki neitt vesen þar. Þetta er eitthvað sem maður imprar á við strákana, við erum að gera fína hluti, vantar bara smá lukku til að ýta boltanum oftar yfir línuna."
Ertu þá að tala um tölfræði eins og xG og sköpuð færi?
„Já, og hversu vel við höldum í boltann, fyrirgjafir og hornspyrnur. Allur pakkinn er bara frábær ef horft er í tölfræðina. Þannig hefur þetta líka verið í allt sumar í Bestu, þannig það er eiginlega ekki rökrétt hvað við erum búnir að skora fá mörk í Evrópukeppninni. Stundum bara koma leikir þar sem tölfræðin "meikar engan sens" og þá þarf bara að halda áfram."
Að spila á útivelli, staðan er jöfn, er nálgunin öðruvísi heldur en fyrir fyrri leikinn?
„Mönnum líður náttúrulega alltaf best á heimavöllum. Þar er allt kunnuglegt. Þú mátt ekki taka einhverja U-beygju og gera eitthvað allt annað á útivelli en við erum vanir að gera, en við þurfum að bera virðingu fyrir verkefninu og kannski setja aðeins meiri hugsun í allar aðgerðir; hvort sem við ætlum að stíga upp, vera í lágvörn eða hvað það er. Það þarf meiri hugsjón og ákefð á bakvið allt, því að um leið og þú slekkur aðeins á þér, þá er þér refsað."
„Á pappírnum eigum við örugglega að vinna þetta lið, en við áttum líka að vinna Shamrock og við gerðum mistök í þeim leik sem kostuðu okkur dýrt. Við þurfum bara að læra af því og læra fljótt."
Býstu við andstæðingnum einhvern veginn öðruvísi en þeir voru í fyrri leiknum?
„Það á sama við þar og ég sagði áðan, þeim líður vel á sínum heimavelli og munu kannski aðeins reyna tjá sig aðeins betur en þeir gerðu í útileiknum; reyna að ná aðeins meiri stjórn á leiknum og sjá aðeins meira af boltanum. Það er okkar að láta það ekki gerast."
Víkingar eru vanir því á Íslandi að spila stóra leiki, úrslitaleik í bikar og gegn toppliðunum hér. Þeir eru líka vanir því að vinna þá leiki.
Heldur þú að sú reynsla hjálpi ykkur í þessari Evrópubaráttu?
„Já, klárlega. Þetta hjálpar að því leyti að þegar þú ert búinn að spila stóra leiki, og vinna þá, þá veistu að þú getur gert það aftur og aftur. Auðvitað leitar maður í reynslubankann."
„Það er allt í lagi að vera stressaður og með hnút í maganum fyrir svona leiki, það er bara eðlilegt. Það snýst bara um að leyfa því ekki að ná tökum á þér og reyna nýta það sem orkugjöf inn í leikina. Við erum með reynslumikið lið, gætum fengið einhverjar kanónur inn úr meiðslum á morgun, og svo erum við með unga, ferska og vitlausa stráka. Ég segi vitlausa á jákvæðan hátt, því stundum er frábært að fá unga stráka sem eru alveg óhræddir og skítsama um pressu. Blandan á því að vera mjög góð."
Arnar var ánægður með ferðalagið út til Tallinn. „Við erum í góðu yfirlæti, á geggjuðu hóteli og Tallinn er flott borg. Það hefur farið vel um okkur, eins og í öllum okkar Evrópuleikjum. Þetta eru hrikalega skemmtilegar ferðir, hópurinn nær að þétta sig saman og það er mikill hugur og einbeiting í hópnum."
Er þetta 50-50 komandi inn í þennan seinni leik?
„Já, þetta er það, staðan er 1-1 og við erum á útivelli. Ég lít á þetta sem 50-50. Ég sagði það fyrir einvígið að ef við eigum tvo toppleiki þá eigum við að komast áfram. Mér fannst leikurinn heima, eftir að hafa horft á hann aftur, vera virkilega góður. Að ná svona tölum (tölfræði) og hafa svona yfirburði í Evrópu er ekkert grín. Okkur vantaði bara mörkin og sofnuðum á verðinum í þessu marki sem við fengum á okkur. Ef bæði lið eiga toppleik, þá eigum við að vera með betra lið."
Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, skrifaði pistil á síðuna í dag þar sem hann sagði það skyldu Víkings að fara áfram. Arnar var spurður út í þá kröfu.
„Ég er algjörlega sammála því. Við krefjumst þess af okkur sjálfum að við vinnum þennan leik. Allt annað en að komast áfram á morgun er bara stórslys, það er ekkert flóknara en það. Við viðurkennum það með glöðu geði," segir Arnar.
Leikurinn á morgun fer fram á Le Coq Arena í Tallinn, höfuðborg Eistlands.
Athugasemdir