Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mán 15. júlí 2024 13:13
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Dr. Football 
Segir Ásgeiri að koma sér frá KA - „Þetta er bara djók"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjörvar Hafliðason, þáttarstjórnandi Dr. Football hlaðvarpsins, sagði í þætti sínum í dag að Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, ætti að koma sér frá KA.

Ásgeir hefur verið inn og út úr byrjunarliðinu hjá KA síðustu vikurnar. Hann byrjaði á bekknum í gær gegn Vestra en kom inn eftir um klukkutíma leik fyrir Viðar Örn Kjartansson.

„Ég ætla að auglýsa einn leikmann sem ég vil að gjöri svo vel og fari frá KA. Ásgeir Sigurgeirsson á ekkert að vera í þessu KA liði lengur ef þeir (KA) hafa ekki áhuga á nota hann frá byrjun. Sækið hann, Skaginn, FH, náið í hann. Þetta er bara djók," sagði Hjörvar sem er frændi Ásgeirs.

Ásgeir hefur talsvert glímt við meiðsli á sínum ferli en Hjörvar segir að Ásgeir hafi aldrei verið heilli en akkúrat núna. „Hann situr þarna á bekknum. Hann á að koma sér í burtu og það strax," sagði Hjörvar.

Í fjórtán deildarleikjum hefur Ásgeir byrjað átta sinnum og komið sex sinnum inn á sem varamaður. Einu sinni hefur hann leikið allar 90 mínúturnar. Hann var síðast í byrjunarliðinu þegar KA vann frækinn sigur á Val í undanúrslitum bikarsins. Hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp tvö mörk í Bestu deildinni á þessu tímabili.

Eftir tímabilið 2022 skrifaði Ásgeir undir samning sem gildir út tímabilið 2025. Hann er 27 ára sóknarmaður sem getur bæði spilað á kantinum og sem fremsti maður. Ásgeir er uppalinn í Völsungi en hefur verið hjá KA síðan 2016. Fyrsta tímabilið var hann á láni frá norska félaginu Stabæk en samdi svo við KA í kjölfarið.

Félagaskiptaglugginn opnar 17. júlí en það verður að teljast nokkuð ólíklegt að Ásgeir yfirgefi KA í glugganum.
Athugasemdir
banner
banner