Trent hafnar tilboðum Liverpool - West Ham stendur fast á verðmiðanum fyrir Kudus - Xabi Alonso hættir næsta sumar - Man Utd og Liverpool fylgjast með...
   fös 15. nóvember 2024 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Táningur frá Hveragerði æfir í Argentínu
Mynd: Hamar / Sunnlenska
Mynd: Hamar
Íslenskur táningur frá Hveragerði er byrjaður að æfa með argentínsku félagsliði eftir að hafa gert frábæra hluti með Hamri.

Brynjar Óðinn Atlason er fæddur 2009 og því aðeins á 16. aldursári. Hann er uppalinn í Hveragerði og hefur verið áberandi góður í fótbolta upp yngriflokkastarfið þar á bæ.

Í fyrra var Brynjar Óðinn valinn fótboltamaður ársins hjá Hamri og um leið tilnefndur ásamt þremur öðrum til að hljóta nafnbótina íþróttamaður ársins 2023, þrátt fyrir að vera ekki nema 14 ára gamall á þeim tíma.

Brynjar hefur verið að æfa með U15 og U16 landsliðum Íslands undanfarin misseri þó að hann eigi enn eftir að fá tækifæri í keppnisleik.

Hann vonast til að hljóta þetta tækifæri á næstunni en hann hefur ákveðið að halda út til Suður-Ameríku í tilraun til að þróa fótboltahæfileika sína enn frekar.

Hann er staddur í Argentínu sem stendur þar sem hann æfir fótbolta með argentínska félaginu Colón de San Justo. Auk þess að æfa með Colón fær Brynjar að sækja æfingar hjá unglingaflokkum úrvalsdeildarliða Newell's Old Boys og Unión de Santa Fe.

Brynjari hlotnaðist þetta tækifæri eftir samskipti við Guido Rancez, argentínskan leikmann sem hefur verið lykilmaður í liði Hamars síðustu tvö ár. Guido er uppalinn hjá Colón.

Til gamans má geta að argentínsku goðsagnirnar Lionel Messi og Diego Armando Maradona hafa báðar verið hjá Newell's Old Boys.
Athugasemdir
banner
banner