Adam Örn Arnarson verður ekki áfram hjá Tromsö eftir tvö tímabil með liðinu. Adam er 26 ára varnarmaður sem uppalinn er hjá Breiðabliki en hefur verið erlendis frá árinu 2013. Fótbolti.net fékk Adam í heimsókn og ræddi hann um tímann í Norður-Noregi.
„Tímabilið var nokkuð erfitt, ég kom að einhverju leyti meiddur inn í undirbúningstímabilið eftir að hafa verið mikið meiddur í fyrra. Félagið fékk annan hægri vængbakvörð inn og ég vissi að ég yrði að vinna mig inn í liðið aftur. Það var ekki létt þar sem ég var ekki með á öllum æfingum og að ströggla aðeins. Það einkenndi tímabilið að ég var alltaf að reyna að vinna mig inn í liðið og það er sérstaklega erfitt þegar besti maðurinn er sá sem kom inn og nú er verið að selja hann á sjö milljónir norskar," sagði Adam sem var að glíma við sömu meiðsli og hann var að glíma við í fyrra.
Sjá einnig:
Píndi sig áfram og sýpur seyðið af því - „Maður vill ekki bregðast liðinu"
„Við ætluðum að halda okkur uppi og náðum ekki að uppskera eins og við sáðum fannst mér fyrri hluta tímabilsins. Við náðum að snúa því og vorum nokkuð þægilegir í lokin. Tímabilið var nokkuð gott ef maður lítur á tímabilið."
Þú skoraðir eitt mark og lagðir upp eitt mark á tímabilinu. Varstu svekktur að fá ekki að spila ennþá meira?
„Já, ég var svolítið svekktur að fá ekki að spila ennþá meira. Það var eins og þjálfarinn og félagið væri búið að ákveða að selja bakvörðinn sem var að spila. Þá er erfitt að taka hann úr liðinu ef á að selja hann og hann er að standa sig vel. Ég fékk að spila eitthvað og gat sýnt að ég get spilað í þessari deild og skilað mínu. Ég náði að nýta ágætlega þær mínútur sem ég fékk."
Adam skoraði gegn Vålerenga í fjórðu síðustu umferð en spilaði svo ekki í leiknum á eftir.
„Ég spilaði hálfleik og skoraði, 1-1, og stóð mig vel heilt yfir. Ég bjóst við að ég fengi að spila eitthvað í næsta leik en það voru núll mínútur. Ég viðurkenni að ég hef verið sáttari."
Adam spilaði svo í næstsíðustu umferð en kom ekkert við sögu í lokaleik tímabilsins.
„Ég átti ekki að vera í hóp á móti Sarpsborg sem við vinnum. Það voru svo aftur núll mínútur, kannski vildi hann ekki að ég spilaði á heimavelli. Það var leiðinlegt að fá ekki að spila einhverjar mínútur í lokaleiknum."
Adam var í viðtali fyrr í þessum mánuði og ræddi þar um heimavöllinn hjá Tromsö.
„Gervigrasið var orðið þreytt, svo að maður segi eins og er. Það er grjóthart og sérstaklega í þessum kulda sem er norður í rassgati þarf maður að vera með alvöru undirlag til að geta æft. Við vorum nokkrir í liðinu sem vorum að ströggla aðeins með völlinn. Völlurinn var ekki að hjálpa, mér leið alltaf betur eftir útileiki heldur en heimaleiki. Maður fann alltaf mun á löppunum eftir útileiki miðað við heimaleiki," sagði Adam.
Í viðtalinu sem má sjá í spilaranum má heyra svör Adams varðandi framhaldið á hans ferli, af hverju hann verður ekki áfram í Tromsö, lífið í Tromsö og áhuga íslenskra félaga.
Athugasemdir