Íslendingalið Norrköping mun ekki leika til úrslita í sænska bikarnum eftir að það tapaði fyrir Häcken, 3-1, í undanúrslitum í dag.
Arnór Ingvi Traustason var fyrirliði Norrköping í dag og þá var Ísak Andri Sigurgeirsson einnig í byrjunarliði liðsins.
Norrköping átti frábæra byrjun er Tim Prica kom liðinu í forystu á 18. mínútu en Häcken svaraði með tveimur mörkum áður en flautað var til hálfleiks.
Á lokamínútum leiksins gerði Häcken út um leikinn og tryggði sig áfram í úrslitaleikinn en það mun mæta Gautaborg eða Malmö.
Úrslitaleikurinn fer fram 29. maí næstkomandi.
Rúnar Þór Sigurgeirsson var þá í byrjunarliði Willem II sem tapaði fyrir Go Ahead Eagles, 1-0, í hollensku úrvalsdeildinni. Tvö mörk voru dæmd af Willem II í leiknum áður en Milan Smit skoraði sigurmark fyrir Eagles.
Willem II er í 16. sæti deildarinnar með 24 stig þegar átta umferðir eru eftir af tímabilinu.
Athugasemdir