Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   þri 16. maí 2023 11:50
Elvar Geir Magnússon
Vill ekki gefa upp hvort Kjartan Henry fari fyrir aganefnd
Kjartan Henry gæti verið á leið í leikbann.
Kjartan Henry gæti verið á leið í leikbann.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ vildi ekki gefa það upp í samtali við Fótbolta.net í dag hvort Kjartan Henry Finnbogason, sóknarmaður FH, færir fyrir aganefnd eftir framgöngu hans í 2-0 tapi FH gegn Víkingi.

Ótrúlegt er að Kjartan hafi sloppið frá því að fá rautt spjald í leiknum en hann gæti samt sem áður fengið leikbann.

Kjartan sparkaði frá sér í baráttu við Birni Snæ Ingason og var nálægt því að hitta í andlitið á honum. Seinna í hálfleiknum var Nikolaj Hansen blóðugur eftir að hafa fengið olnbogaskot frá Kjartani í baráttu í teignum. Að auki ýtti hann við Pétri Guðmundssyni dómara í leiknum.

Klara getur vísað þeim atvikum til aganefndar sem dómarar sjá ekki í leiknum, ef sönnun er til staðar með myndbandsupptöku. Sem dæmi fékk Omar Sowe, þá leikmaður Breiðabliks, tveggja leikja bann í fyrra eftir olnbogaskot í leik gegn Leikni, liðinu sem hann spilar nú fyrir. Dómararnir tóku ekki eftir atvikinu og var því vísað til aganefndar.

„Það er hulin ráðgáta hvernig þetta getur gerst. Með ólíkindum," sagði Sæbjörn Steinke, fréttamaður Fótbolta.net, í Innkastinu þar sem rætt var um það hvernig Kjartan Henry slapp frá því að fá rautt spjald í Fossvoginum. Talsvert hefur verið um dómaramistök í upphafi móts.

„Það er svo skrítið að Pétur, þessi reynslumikli dómari, láti þetta framhjá sér fara," segir Sæbjörn og í þættinum er því bætt við að annar reynslubolti, Erlendur Eiríksson, hafi verið fjórði dómari.

„Kjartan er með 'Fear Factor', hann er með sinn stimpil og ég veit ekki hvort menn séu smeykari við að fleygja honum af velli en öðrum. Í tvígang hefði verið hægt að henda honum af velli," segir Magnús Þórir Matthíasson, gestasérfræðingur þáttarins.

Kjartan sjálfur sendi frá sér stutta yfirlýsingu á Twitter í gær þar sem hann segir meðal annars: „Eftir að hafa séð þessi leiðinlegu atvik aftur þá sé ég mikið eftir þessu 'pirrings' sparki í átt að Birni. Hefði getað endað illa, gerði það ekki en á aldrei að eiga sér stað," skrifaði Kjartan.
Innkastið - KR á botninum og hiti í Hamingjunni
Athugasemdir
banner
banner
banner