Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 16. september 2018 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
Yfirlýsing Hugins - Hafnar niðurstöðu áfrýjunardómstóls
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Furðulegt mál er komið upp í 2. deild karla í knattspyrnu eftir dómaramistök í viðureign Völsungs og Hugins sem var leikinn á Seyðisfirði 17. ágúst.

Huginn vann leikinn með marki í uppbótartíma en Völsungur kærði úrslitin til Knattspyrnusambandsins vegna dómaramistaka og leikskýrslufölsunar.

Eftir rifrildi milli Húsvíkinga og KSÍ og tvær yfirlýsingar frá Völsungi ákvað áfrýjunardómstóll KSÍ að fallast á beiðni Völsunga og ógilda leikinn. Hann á því að vera spilaður aftur á Seyðisfjarðarvelli.

Seyðisfirðingar eru ekki sáttir með þessa ákvörðun og hafa þeir gefið út sína eigin yfirlýsingu vegna málsins.

Þetta yrði afar mikilvægur leikur fyrir Völsung sem getur blandað sér í toppbaráttuna með sigri. Huginn situr á botninum með 6 stig eftir 20 umferðir.

Yfirlýsing Hugins:

16. september 2018
Vegna niðurstöðu áfrýjunardómstóls KSÍ

Í dag bárust knattspyrnudeild Hugins þær fréttir að áfrýjunardómstóll KSÍ hafi úrskurðað að leikur Hugins og Völsungs sem leikinn var 17. ágúst 2018 sé dæmdur ógildur og að hann skuli endurtaka á Seyðisfjarðarvelli.

Knattspyrnudeild Hugins mótmælir eindregið þessari niðurstöðu og krefst þess að stjórn KSÍ komi saman og taki málið til efnislegrar meðferðar enda niðurstaðan af þeirri stærðargráðu og engin fordæmi fyrir slíkum úrskurði í sögu íslenskrar knattspyrnu svo vitað sé til.

Það er ljóst að með þessari niðurstöðu er hvorki verið að taka tillit til áhrifanna sem umrædd leikskýrsla hafði á næstu leiki mótsins né framvinduna á úrslit deildarinnar bæði á toppi og botni.

Í umræddum leik fengu þrír leikmenn Hugins og fimm leikmenn
Völsungs gul spjöld. Á þessum tímapunkti barðist Huginn fyrir
tilverurétti sinni í delidinni. Áhrif þeirra spjalda sem Huginn fékk í
umræddum leik urðu til þess að tveir af máttarstólpum liðsins, þeir Rúnar Freyr Þórhallsson og Blazo Lalevic, fengu gul spjöld og þar af leiðandi leikbönn eftir fund aganefndar vegna uppsafnaðra spjalda. Bannið tóku þeir út á móti Aftureldingu, þann 25. ágúst, í leik sem skipti miklu máli í baráttunni sem liðið var í.

Bjarki Baldvinsson, leikmaður Völsungs, fékk sömuleiðis spjald sem olli því að hann var í leikbanni gegn Gróttu sama dag. Úrslit þessarra leikja höfðu stórtæk áhrif á stöðu deildarinnar og léku liðin án sinna lykilmanna.

Skýrsla KSÍ í umræddum leik hafði því áhrif á fleiri leiki sem taka þarf tillit til. Í leik Hugins gegn Aftureldingu þar sem, eins og áður var tekið fram, liðið lék án tveggja lykilmanna, fékk Ingólfur Árnason rautt spjald og þar með leikbann í leik liðsins gegn Víði.

Hversu langt á seilast í þessu máli til að fullnægja réttlætinu?

Við niðurröðun leikja í 2. deild er miðað við að tvær síðustu umferðir mótsins skulu leiknar á sama tíma þegar úrslit leikja geta haft úrslitaáhrif á stöðu liða í efstu og neðstu sætum deildarinnar. Með því að endurspila leikinn í miðri viku fyrir lokaumferðina hefur það augljós áhrif á toppbaráttu deildarinnar þar sem að Huginn á leik við Gróttu einungis þremur dögum síðar og t.a.m. á Vestri leik við úthvílda leikmenn Kára.

Eins og fram kemur í lokaúrskurði áfrýjunardómstóls skal allur
ferðakostnaður Völsungs greiddur af fullu af KSÍ. Hvergi er þar að
finna staf um það hver skal greiða fyrir þann kostnað sem fylgir því að kalla til þá leikmenn Hugins sem búsettir eru annars staðar en á Seyðisfirði vegna skóla og atvinnu. Ekki má heldur gleyma því að með því að leika í miðri viku þarf að taka tillit til vinnutaps og kostnaðar sem af því hlýst. Þá kemur KSÍ ekki til móts við Huginn í þeim kostnaði sem fylgir undirbúningi og framkvæmd við það að gera leikvöll tilbúinn til leiks. Það fellur allt að einu í þessu máli að
úrskurðurinn dregur taum annars aðilans, þ.e. Völsungs.

Í umræddum leik, skv. niðurstöðu dómstólsins, fer dómarinn út fyrir valdsvið sitt með því að reka leikmann ranglega af velli. Valdsvið dómarans í leikjum Íslandsmótsins eru Knattspyrnulög KSÍ og í þessu tilviki stígur dómarinn vissulega út fyrir það svið. Ef hægt er að sýna fram á að dómari fer á mis við knattspyrnulögin með röngum ákvörðunum má þá túlka þessa niðurstöðu sem svo að hægt sé að kæra framkvæmd leiksins og hann þá endurleikinn? Með þessu er gefið vafasamt fordæmi sem ekki sér fyrir endann á.

Að framansögðu hafnar Knattspyrnudeild Hugins niðurstöðu
áfrýjunardómstóls KSÍ.

Fyrir hönd knattspyrnudeildar Hugins
Sveinn Ágúst Þórsson, formaður knattspyrnudeildar
Brynjar Skúlason þjálfari Hugins

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner