Ísak Andri var seldur til Norrköping en Eggert viðurkennir að það hafi kitlað að fara út á sama tíma
Eggert Aron Guðmundsson verður áfram í Stjörnunni, alla vega í bili, en hann ræddi við Sæbjörn Þór Steinke, fréttamann Fótbolta.net, um ákvörðun sína.
Stjörnumaðurinn hefur verið að tæta Bestu deildina í sig og þá var hann aðalstjarna U19 ára landsliðsins á Evrópumótinu á Möltu í sumar, þar sem hann skoraði fallegasta mark mótsins er hann hljóp upp allan völlinn, átti gott samspil með Guðmundi Baldvini Nökkvasyni áður en hann setti boltann í netið.
Það myndband fór eins og eldur um sinu á netheimum en eftir gott Evrópumót fóru tilboðin að skila sér til Stjörnunnar og þurfti hann því að taka erfiða ákvörðun.
„Það kemur í lok gluggans að ég þarf að taka ákvörðun um hvort ég vilji vera áfram í Stjörnunni eða fara út. Það komu tilboð en þegar það leið á gluggann þurfti ég að taka ákvörðun, sem var mjög erfið, en ég tók ákvörðun að vera áfram í Stjörnunni. Ég stend með henni í dag og sé ekki eftir henni í eina sekúndu,“ sagði Eggert Aron, sem býst fastlega við því að áhuginn verði enn til staðar svo lengi sem heldur áfram að spila vel. „Já, ef ég held áfram að spila eins og ég er búinn að gera í sumar þá hef ég engar áhyggjur að það komi ekki neitt. Miðað við hvað ég er búinn að bæta mig undanfarið sé ég ekki ástæðu að komi ekkert tilboð.“
Eggert er mikill Stjörnumaður og sagði hann fyrr í sumar að það þyrfti eitthvað mikið til að hann myndi yfirgefa félagið, en viðurkenndi að hann væri ekki tilbúinn að kveðja alveg strax.
„Ég er einn sá harðasti en mun á endanum þurfa nýja áskorun og er spenntur fyrir henni. Á sama tíma er ég ógeðslega glaður að vera í Garðabænum.”
„Já algjörlega. Það er gaman að vera í Garðabænum í dag, góðir hlutir að gerast og þarf eitthvað geðveikt að gerast til að maður fari út úr þessum kúltúr.“
Ýmislegt spilaði inn í ákvörðun hans en hann er ánægður með Jökul Elísabetarson, þjálfara liðsins og telur fótboltann henta sér frábærlega.
„Það eru margar ástæður fyrir því. Fyrst og fremst er Jökull frábær þjálfari og ekkert víst þegar ég fer út hvort ég fái betri þjálfara en það. Líka bara hvernig Stjarnan er að spila, mjög aðlaðandi og finnst mér við heitasta liðið í dag. Með þessu áframhaldi erum við að fara berjast um titla,“ sagði hann enn fremur.
Nokkur heillandi tilboð bárust Eggerti og jafnvel boð sem erfitt var að neita en hann taldi ekki rétt að fara á þessum tímapunkti.
„Já, það voru nokkur sem voru mjög heillandi og erfitt að segja nei takk í bili, en eins og ég segi ég stend með ákvörðuninni og ánægður með það.
„Ég skoðaði þetta mjög vel og fór yfir hvernig þessi lið spila og 'identity of play'.“
„Þetta snýst ekki bara um stærð félaga heldur hvernig þau spila, hversu mikið þau vilja fá mig og hvar sjá þau mig í framtíðinni. Hvernig þau nálgast mig, tala um mig, við mig og allt hlutir sem spila mjög vel inn í.“
„Það eru alveg lið sem eru búin að bjóða mér í heimsókn eftir tímabil og skoða aðstæður. Ég hugsa að ég myndi gera það en það eru alla vega lið sem vilja skoða mig.“
„Eins og Helgi Hrannar sagði komu öll þessi tilboð frá Norðurlöndunum en það er áhugi annars staðar frá meginlandinu en tilboðin komu frá Skandinavíu. Ekkert í Asíu, Afríku eða Sádi, bara þessi hefðbundnu lönd,“ sagði Eggert.
Ísak Andri Sigurgeirsson og Guðmundur Baldvin Nökkvason voru báðir seldir frá Stjörnunni til Svíþjóðar. Ísak fór til Norrköping og Guðmundur til Mjällby, en Eggert segir það alveg hafa kitlað að fara á sama tíma.
„Ég viðurkenni það að sjá þá fara langar manni líka að fara, eins skrítið og það hljómar, en það þýðir samt ekkert að taka bara eitthvað. Maður verður að hugsa þetta mjög vel því þetta er framtíð manns og auðvitað getur maður tekið ranga ákvörðun og verður bara að standa með henni, en ég vil hugsa þetta mjög vel til að láta þetta ganga,“ sagði Eggert við Fótbolta.net.
Athugasemdir