Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
banner
   fös 17. apríl 2020 10:00
Hafliði Breiðfjörð
Hvað er að frétta frá KSÍ? Nokkrir starfsmenn í sóttkví
Klara Bjartmarz er framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz er framkvæmdastjóri KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Við gerum ekki ráð fyrir því að fá Víði aftur sem starfsmann í fullu starfi (amk ekki í bili) en vonandi verður hann í einhverju hlutverki hjá okkur áfram.''
,,Við gerum ekki ráð fyrir því að fá Víði aftur sem starfsmann í fullu starfi (amk ekki í bili) en vonandi verður hann í einhverju hlutverki hjá okkur áfram.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Einnig höfum við nýtt tímann til að taka sumarfrí.''
,,Einnig höfum við nýtt tímann til að taka sumarfrí.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klara Bjartmarz er framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands en heimsfaraldur Covid-19 veirunnar hefur lamað fótboltann hér á landi sem annars staðar.. Við tókum púlsinn á Klöru og spurðum út í stöðuna hjá KSÍ á meðan faraldurinn gengur yfir.

Sjá einnig:
Hvað er að frétta frá Hong Kong? Spiluðu í 8 vikur án áhorfenda
Hvað er að frétta frá Stokkhólmi? Kemur að sársaukaþröskuldi
Hvað er að frétta frá Sviss? Starfsemi hætt 13. mars

Hvernig hefur síðasti mánuður verið á skrifstofu KSÍ?
Mjög sérstakur, margir starfsmenn vinna heiman frá sér en aðrir koma á skrifstofuna.

Einnig höfum við nýtt tímann til að taka sumarfrí.

Eru full starfsemi á skrifstofunni?
Já, við höfum lagt áherslu á að halda uppi fullri þjónustu gagnvart aðildarfélögum og iðkendum.

Hvaða verkefnum eru starfsmenn sambandsins í meðan enginn fótbolti er spilaður?
Við erum til dæmis að vinna að ýmsum hagsmunaverkefnum tengdum ástandinu, undirbúningi keppnistímabilsins hér innanlands, undirbúningi landsleiksverkefna, uppfærslu fræðsluefnis, verið að skrá gamlar leikskýrslur, endurskipulagning búningalagers og svo mætti lengi telja.

Nú er ekki hægt að segja hvenær fótboltinn hefst að nýju og æfingar eru líka niðri. Eru félögin mikið að hafa samband við KSÍ og hvað er það helst sem þau leita eftir svörum með?
Já, við fáum talsvert af fyrirspurnum bæði frá aðildarfélögum, iðkendum og öðrum. Í flestum tilfellum er um að ræða spurningar um fjármál, fyrirkomulag æfinga og hvenær mótin hefjast að nýju.

Þið hafið verið með fjarfundi með félögum og stjórnarmönnum, hvernig hefur það gengið?
Mjög vel. Í fjárhagsáætlun fyrir 2020 var gert ráð fyrir lækkuðum kostnaði vegna funda innanlands þannig að við vorum byrjuð að nýta okkur fjarfundabúnað. Sá undirbúningur kom sér vel og því hefur þetta gengið áfallalaust hjá okkur.

Hefur KSÍ nýtt sér einhverja af leiðum ríkisstjórnarinnar og ef já hverja þeirra?
Þessi mál eru í vinnslu hjá okkur.

Hafa verið einhverjar uppsagnir?
Nei, ekki í tengslum við C-19.

Hafa styrktaraðilar sagt upp samningum eða einhver annar tekjubrestur?
Það hefur ekki komið til uppsagnar á samningum við bakhjarla KSÍ en vissulega er mikil óvissa um tekjur sambandsins, til dæmis hvað varðar tekjur af landsleikjum.

Víðir Reynisson var lánaður til lögreglunnar fyrstu tvo mánuði ársins en ílengdist þegar hann færðist í lykilhlutverk almannavarna. Er hann mikilvægur starfsmaður fyrir KSÍ og bindur þú vonir um að fá hann aftur?
Við gerum ekki ráð fyrir því að fá Víði aftur sem starfsmann í fullu starfi (amk ekki í bili) en vonandi verður hann í einhverju hlutverki hjá okkur áfram. Víðir hefur verið tekið þátt í verkefnum fyrir sambandið síðan 1997 og hefur mikla reynslu og sérþekkingu varðandi mikilvæg verkefni.

Hafa einhverjir starsfsmenn sambandsins fengið sjúkdóminn eða lent í sóttkví?
Já, við höfum haft nokkra starfsmenn í sóttkví, einn starfsmaður hefur fengið greiningu en fékk ekki einkenni.

Hvernig sérðu fyrir þér næstu vikur og mánuði hjá sambandinu?
Fljótlega getum við vonandi farið að undirbúa Íslandsmótin-og bikarkeppni KSÍ af fullum krafti og þá verður í nógu að snúast. Í framhaldi af því getum við farið að kortleggja haustið hvað varðar Evrópukeppnir félagsliða og landsliða.

Hvernig hafa málin verið persónulega hjá þér. Hefur gengið vel að komast í gegnum þetta?
Bara nokkuð vel, takk. Skerðing á leikskólaplássi hefur valdið flækjum en þar sem ég á inni sumarfrí þá hefur þetta allt bjargast.
Athugasemdir
banner