Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   sun 17. júlí 2022 21:18
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Endurkomusigur Blika í Keflavík - Skoraði eitt flottasta mark tímabilsins í sigri á ÍA
Höskuldur Gunnlaugsson skoraði tvö á síðustu tíu mínútum leiksins og tryggði Blikum sigur
Höskuldur Gunnlaugsson skoraði tvö á síðustu tíu mínútum leiksins og tryggði Blikum sigur
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ólafur Karl Finsen skoraði stórbrotið mark fyrir Stjörnuna
Ólafur Karl Finsen skoraði stórbrotið mark fyrir Stjörnuna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Snær lagði upp fyrsta mark Blika og fiskaði svo vítaspyrnuna undir lokin
Ísak Snær lagði upp fyrsta mark Blika og fiskaði svo vítaspyrnuna undir lokin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan er komin aftur á ról eftir að hafa unnið ÍA, 3-0, á Norðurálsvellinum á Akranesi í 13. umferð Bestu deildar karla en þetta var fyrsti sigur liðsins síðan í lok maí. Höskuldur Gunnlaugsson sá þá til þess að Breiðablik myndi vinna Keflavík, 3-2, í mögnuðum endurkomusigri á HS Orku-vellinum.

Stjarnan hafði tapað einum og gert þrjú jafntefli í síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni og var liðið ákveðið í að koma sér aftur í gang í dag.

Emil Atlason skoraði strax á 5. mínútu. Eggert Aron Guðmundsson átti flotta sendingu inn í teiginn og tók Emil hann á lofti; algjörlega óverjandi fyrir Árna Snæ Ólafsson í markinu.

Kristian Lindberg fékk fullkomið tækifæri að jafna fyrir Skagamenn í næstu sókn en Haraldur Björnsson varði frá honum úr algeru dauðafæri.

Þegar lítið var eftir af fyrri hálfleiknum var svo eitt og ef ekki bara besta mark tímabilsins skorað. Haraldur Björnsson átti langan bolta fram á Emil Atlason sem kom boltanum á Jóhann Árna Gunnarsson. Hann framlengdi svo áfram á Eggert Aron, sem fann Emil aftur. Framherjinn knái átti þá stórkostlega hælsendingu inn á Ólaf Karl Finsen, sem lyfti boltanum upp og tók stórkostlega hjólhestaspyrnu í samskeytin. Ótrúleg tækni hjá Garðbæingnum.

Ísak Andri Sigurgeirsson gerði út um leikinn um það bil fimmtán mínútum fyrir leikslok. Emil Atla átti sendingu á Ísak sem setti boltann örugglega í netið. Mikilvægur sigur hjá Stjörnunni sem er í 4. sæti með 23 stig, en Skagamenn í neðsta sæti með 8 stig.

Endurkomusigur hjá Blikum í Keflavík

Breiðablik vann Keflavík, 3-2, í dramatískum leik á HS Orku-vellinum í Keflavík.

Keflvíkingar hafa verið á mikilli siglingu í síðustu leikjum eftir annars slaka byrjun á tímabilinu. Liðið veitti toppliði Blika alvöru leik í dag en vítaspyrna undir lokin varð þeim að falli.

Omar Sowe kom Blikum á bragðið á 10. mínútu. Keflvíkingar misstu boltann og kom langur bolti fram á Ísak Snæ Þorvaldsson, sem skallaði hann fyrir Sowe og kláraði hann listavel framhjá Sindra í markinu.

Adam Árni Róbertsson jafnaði metin fyrir Keflavík á 27. mínútu eftir langt innkast frá Rúnari Þór Sigurgeirssyni. Boltinn skoppaði í gegnum vörn Blika og á fjærstöng þar sem Adam Árni var mættur til að afgreiða boltann í netið.

Frans Elvarsson kom sér í hörkufæri undir lok fyrri hálfleiksins eftir að Adam Árni hafði leikið á Gísla Eyjólfsson, en skotið frá Frans fór hárfínt framhjá markinu.

Keflvíkingar mættu gíraðir inn í síðari hálfleikinn og tóku forystuna strax á 48. mínútu í gegnum Patrik Johannesen. Mikkel Qvist gerði sig sekann um slæm mistök í vörn Blika og tapaði boltanum. Adam Árni hafði því tíma til að koma boltanum á Patrik sem var ekki í neinum vandræðum með að skora.

Blikar settu þunga pressu á heimamenn eftir markið. Dagur Dan Þórhallsson átti skot rétt framhjá markinu. Blikar héldu áfram að sækja og skilaði jöfnunarmarkið sér fyrir rest.

Höskuldur Gunnlaugsson gerði það með þrumuskoti af 20 metra færi og söng boltinn í netinu. Högg fyrir Keflvíkinga en höggið varð enn þyngra þegar Blikar fengu vítaspyrnu undir lok leiksins.

Heimamenn brutu á Ísaki innan teigs og var Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins, fljótur að benda á punktinn. Höskuldur skoraði af öryggi úr vítinu og tryggði Blikum stigin þrjú.

Blikar eru á toppnum með 34 stig en Keflavík í 6. sæti með 17 stig eftir þrettán leiki.

Úrslit og markaskorarar:

ÍA 0 - 3 Stjarnan
0-1 Emil Atlason ('5 )
0-2 Ólafur Karl Finsen ('45 )
0-3 Ísak Andri Sigurgeirsson ('75 )
Lestu um leikinn

Keflavík 2 - 3 Breiðablik
0-1 Omar Sowe ('10 )
1-1 Adam Árni Róbertsson ('27 )
2-1 Patrik Johannesen ('48 )
2-2 Höskuldur Gunnlaugsson ('81 )
2-3 Höskuldur Gunnlaugsson ('91 , víti)
Rautt spjald: Halldór Árnason, Breiðablik ('72) Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner