Höskuldur Gunnlaugsson var sannkölluð hetja Breiðabliks þegar liðið lagði Keflavík 3-2 í Keflavík fyrr í kvöld í endurkomusigri. Keflavík komst 2-1 yfir snemma í síðari háfleik og þannig stóðu leikar allt fram á 80.mínútu leiksins þegar Höskuldur jafnaði leikinn með þrumuskoti utan teigs sem söng í netinu. Höskuldur var svo aftur á ferðinni í uppbótartíma þegar hann skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að brotið var á Ísaki Snæ Þorvaldssyni í teig Keflavíkur. Höskuldur ræddi við fréttaritara að leik loknum.
Lestu um leikinn: Keflavík 2 - 3 Breiðablik
„Við erum bara heppnir að komast héðan með þrjú stig. Þetta var djöfull erfiður leikur og bara járn í járn allan tímann.“ Sagði Höskuldur um viðbrögð sín við sigrinum.
Keflavíkurliðið mætti Blikum af hörku í dag og setti dágóða pressu á Kópavogspilta lengi vel í leiknum. Kom upplegg þeirra Höskuldi og liðsfélögum hans á óvart?
„Við vorum búnir að skoða þá vel og sjá að það er plan í gangi hjá þeim. Þeir eru ekkert eðlilega góðir í skyndisóknum þegar þeir vinna boltann þá vita þeir hvert þeir eiga að fara og þótt þú vitir það þá er það hægara sagt en gert að stoppa það þannig að það kom ekkert á óvart en var ekkert auðveldara þar með sagt.“
Mikið álag hefur verið á liði Breiðabliks að undanförnu. Er Höskuldur eitthvað farinn að finna fyrir því í fótunum?
„Nei nei. Þú kemst bara í betra og betra leikform. Þetta er bara því fleiri leikir því betra. “
Sagði Höskuldur en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir