Arnór Borg Guðjohnsen er genginn í raðir Víkings og skrifar undir þriggja ára samning. Hann kemur frá Fylki þar sem hann hefur verið frá því snemma síðasta sumar.
Haldinn var fréttamannafundur í Víkinni í dag og ræddi Fótbolti.net við Arnór um skiptin.
Haldinn var fréttamannafundur í Víkinni í dag og ræddi Fótbolti.net við Arnór um skiptin.
„Ég er mjög ánægður og mjög spenntur. Ég er búinn að hugsa um þetta í langan tíma, það hefur verið áhugi frá öðrum liðum og á endanum fannst mér þetta vera besta leiðin fyrir mig til að taka næsta skref," sagði Arnór.
Arnór segist stefna aftur út í atvinnumennsku en hann var á mála hjá Swansea áður en hann gekk í raðir Fylkis.
Arnór fór í aðgerð vegna nára kviðslits fyrir þremur dögum og er að ná sér eftir hana. Endurhæfingin á að taka á bilinu 4-6 vikur. Meiðslin hefur hann glímt við síðan snemma á þessu ári.
„Það er klárlega léttir að fá svör við því hvað hefur verið að hrjá mig. Ég er búinn að hitta mikið af læknum og sjúkraþjálfum. Það er geggjað að það sé búið að laga þetta."
Eru einhverjir einstaklingar sem hjálpa þér að taka þessa ákvörðun, kannski pabbi þinn?
„Já, klárlega. Ég, pabbi og bróðir minn fórum yfir þetta. Á endanum tók ég ákvörðunina sjálfur."
Arnór var orðaður við FH og Breiðablik í sumar. Fóru þær viðræður langt?
„Já, ég var búinn að fá að tala við bæði félög, þetta eru allt flottir klúbbar og flottir þjálfarar. Þetta var ekki auðvelt val en innsæið sagði að ég ætti að fara til Víkings og ég treysti því."
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir