Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 18. mars 2019 12:00
Arnar Daði Arnarsson
Viðar Örn: Mistök að fara í Rostov
Viðar Örn er kominn í sænsku deildina á nýjan leik.
Viðar Örn er kominn í sænsku deildina á nýjan leik.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Viðar fagnar marki fyrir Malmö.
Viðar fagnar marki fyrir Malmö.
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson hefur verið lánaður til Hammarby í Svíþjóð frá Rostov í Rússlandi fram að sumri.

Viðar Örn hefur lítið fengið að spila hjá Rostov síðan hann gekk til liðs við félagið í lok ágúst á síðasta ári frá Maccabi Tel Aviv.

Sænska deildin sú sterkasta á Norðurlöndunum
„Ég vil fara í nýtt lið þar sem leikskipulagið hentar mér og allir hafa trú á mér sem er nauðsynlegt fyrir framherja og þannig hefur það verið á mínum ferli áður en ég kom til Rostov," sagði Viðar Örn í samtali við Fótbolta.net.

Viðar Örn þekkir sænsku deildina ágætlega en hann lék Malmö um tíma og skoraði þar 14 mörk í 20 leikjum áður en hann var seldur til Maccabi Tel Aviv.

„Sænska deildin er líklega búin að taka framúr þeirri dönsku sem sterkasta deildin á Norðurlöndunum. Hún er ein af fáu deildunum sem eru í boði fyrir mig núna þannig þetta er frábært skref fram að sumri,” sagði Viðar en Hammarby endaði í 4. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í fyrra, aðeins markatölu frá því að komast í Evrópukeppnina.

Sænska deildin fer aftur af stað í lok mars.

Mikill áhugi í janúar
„Ég er búinn að vera glíma við meiðsli á þessu tímabili og sjálfstraustið hefur farið þannig niður. Ég er því spenntur fyrir þeirri hugmynd að fara á lán og spila reglulega fram að sumri og ná upp leikformi og sjálfstrausti aftur. Það kemur fyrir að maður fari í rangt lið en ég ætla ná upp fyrri styrk og finna síðan góða framtíðarlausn í sumar. Ég þarf að vanda valið þá."

Viðar var í erfiðri stöðu þar sem samkvæmt félagaskiptareglum UEFA þá mátti Viðar ekki fara hvert sem er í janúar.

„Ef ég ég hefði mátt skipta til þriðja félagsins á sama tímabili þá voru topplið í Tyrklandi og Rússlandi sem vildu fá mig í janúar en ég mátti ekki spila með þriðja liðinu á sama tímabilinu."

Eins og fyrr segir hefur Viðar ekki fengið eins mörg tækifæri hjá Rostov í rússnesku deildinni og hann vonaðist eftir. Þrátt fyrir að skora síðan í æfingaleikjum fyrir Rostov í janúar gegn bæði Lokomotiv og Spartak Moskvu hefur hann þurft að dúsa á varamannabekknum eftir áramót mestmegnis.

„Leikstíll liðsins hentar enganvegin þeim framherja sem vill vera í teignum og skora enda skoruðum við sárafá mörk og þessi leikstíll að mínu mati er mjög dapur og old school. Ég þarf þjónustu frá liðsfélögum mínum og sóknarsinnað lið til að njóta mín, lið sem vill hafa boltann."

„Hjá Rostov er það bara langur bolti og reyna vinna seinni boltann," sagði Viðar sem viðurkennir að það hafi verið mistök að fara til Rostov eftir á að hyggja.

„Það voru mistök að koma hingað því þjálfaranum vantaði aldrei framherja eins og ég er. Ég efast um að þjálfarinn hafi viljað fá mig og þá endar það ekki vel."

„Afsakanir þjálfarans þegar við töpum eru yfirleitt útaf því að leikmenn hafa ekki hlaupið nóg samkvæmt GPS tækjunum. Þjálfarinn er mjög íhaldsamur og ég kom á þeim tíma sem allt gekk vel og liðið var í 2. sæti deildarinnar. Hann spilaði á sama liðinu tíu leiki í röð þrátt fyrir að lítið hafi gengið."

Um áramótin segir Viðar að þjálfarinn hafi lofað honum meiri spiltíma eftir áramót og allt gekk vel í æfingaleikjunum í janúar þar sem hann skoraði í tveimur æfingaleikjum. Mínúturnar eftir áramót hafa þó ekki farið fjölgandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner