Birkir Bjarnason og Davíð Kristján Ólafsson voru báðir á skotskónum í Evrópuboltanum í dag en þetta var fyrsta mark Birkis fyrir tyrkneska liðið Adana Demirspor á meðan Davíð heldur áfram góðu gengi í norsku B-deildinni.
Birkir var að spila fyrsta byrjunarliðsleik sinn með Adana en hann kom til félagsins á frjálsri sölu í síðasta mánuði.
Hann fagnaði því með að skora í 3-1 sigri á Rizespor. Markið kom á 66. mínútu en hann lúrði á fjærstönginni og skoraði eftir skallasendingu frá Simon Deli. Birkir spilaði allan leikinn fyrir heimamenn sem náðu í fyrsta sigurinn á tímabilinu.
Jökull Andrésson stóð á milli stanganna hjá Morecambe sem tapaði fyrir Doncaster Rovers, 1-0, í ensku C-deildinni. Morecambe er í 18. sæti með 7 stig.
Þórir Jóhann Helgason og Brynjar Ingi Bjarnason sátu báðir á varamannabekknum er Lecce vann Alessandria 3-2 í ítölsku B-deildinni.
Hjörtur Hermannsson var á meðan í byrjunarliði Pisa í 3-1 sigri á Vicenza Virtus. Fylkismaðurinn byrjaði í hægri bakverðinum en var skipt af velli á 59. mínútu. Pisa er að gera góða hluti í byrjun leiktíðar og situr á toppnum með fullt hús stiga eftir fjóra leiki.
Davíð á eldi í Noregi
Davíð Kristján hefur verið að leika glimrandi vel með Álasundi í norsku B-deildinni. Hann lagði upp tvö mörk í 6-2 sigri á Grorud á dögunum og var í kjölfarið valinn í lið umferðarinnar.
Hann fylgdi því á eftir í dag með marki og stoðsendingu í 6-1 sigri á Aasane. Ansi góð vika hjá Blikanum sem er nú kominn með fimm stoðsendingar og eitt mark í B-deildinni. Álasund er í 3. sæti með 38 stig.
Aron Sigurðarson kom inná sem varamaður í dönsku B-deildinni er Horsens vann 3-0 sigur á Hobro. Hann kom við sögu á 61. mínútu. Horsens er í 4. sæti með 16 stig.
Bjarni Mark Antonsson lék þá allan leikinn fyrir Brage sem tapaði fyrir GAIS, 4-1, í sænsku B-deildinni. Brage er búið að eiga erfitt tímabil og situr í 12. sæti deildarinnar með 21 stig.
Valgeir Lunddal Friðriksson kom þá af bekknum er Häcken gerði markalaust jafntefli við Mjällby í sænsku úrvalsdeildinni. Hann kom inná á 65. mínútu en Oskar Sverrisson sat allan tímann á tréverkinu. Häcken er í 10. sæti með 23 stig.
Athugasemdir