,,Við erum búnir að vera að vinna í því í haust að finna þær styrkingar sem við þurfum að laga frá í sumar og þetta er mjög góður áfangi í því," sagði Ólafur Þórðarson þjálfari Víkings eftir að liðið tilkynnti komu Andra Steins Birgissonar frá Leikni og Ingvars Þórs Kale frá Breiðabliki í gær.
,,Við stefnum á að reyna að berjast um úrvalsdeildarsæti á næsta ári. Við erum með mikið af ungum og efnilegum strákum en það hefur vantað aðeins meiri breidd í reynsluboltunum og við teljum okkur vera að gera mjög góða hluti að fá þessa tvo hingað."
Áður en Ingvar Kale kom núna var Víkingur með tvo markmenn fyrir. Skúla Sigurðsson og Magnús Þormar.
,,Við erum með markmenn fyrir á samningum og það er ekki alveg komið á hreint hvernig vinnst úr því. Það er undir mönnum sjálfum komið að vinna sér sæti í liðinu," sagði Ólafur en er þá ekkert gefið að Ingvar eigi byrjunarliðssætið?
,,Ég held að það sé hvergi gefið en ef menn eru á sínu leveli eða sinni getu þá er ég ekkert hræddur um að þeir verði ekki í liðinu."
Ólafur er í frekara viðtali í sjónvarpinu hér að ofan og segir að hann sé að skoða frekari styrkingu á liðinu en ekkert að flýta sér. Víkingur er enn með Björgólf Takefusa á samningi og hann er ekki á leið í Breiðablik eftir að hafa rætt við þá. En sér Ólafur fyrir sér að reyna að halda honum í Víkingi?
,,Það kemur í ljós. Björgólfur vill spila í efstu deild og ég skil það mjög vel. Hvað gerist í því verður tíminn að leiða í ljós. Hann er samningsbundinn Víking og við sjáum hvað setur í því. Auðvitað gæti ég notað hann, engin spurning. Björgólfur er hörkuleikmaður og hefur ákveðna kosti. Við höfum verið með annan senter á svipuðu kaliberi bara aðeins eldri (Hjört Hjartarson). En tíminn verður að leiða þetta í ljós. Björgólfur vill fara í efstu deild og svo sjáum við hvað verður úr því."
Athugasemdir