Ferland Mendy, leikmaður Real Madrid á Spáni, er ásakaður um að hafa beitt tvær konur ofbeldi í Frakklandi fyrir þremur árum síðan en það er franski rannsóknarblaðamaðurinn Romain Molina sem opinberar þetta á Twitter í kvöld.
Mendy tjáði sig í gær um myndbirtingar hjá fjölmiðlum en margir fjölmiðlar hafa notast við myndir af honum og Edouard Mendy, markverði Chelsea, þegar það kemur að fréttum í kringum franska vinstri bakvörðinn Benjamin Mendy hjá Manchester City.
Benjamin er í gæsluvarðhaldi og er ákærður fyrir sex nauðganir gegn fjórum konum. Fjölmiðlar hafa reglulega birt myndir af Ferland og Edouard þegar skrifað er um Benjamin en báðir leikmennirnir kölluðu eftir því að þetta yrði lagað.
„Takk, Edouard Mendy. Það er árið 2021. Hættið þessu. Það mun taka tíma en þið komið til með að virða okkur hvort sem ykkur líkar betur eða verr!" sagði Ferland á Twitter.
Þessi færsla varð til þess að Molina, einn þekktasti rannsóknarblaðamaður Frakklands, opinberaði gögn um franska varnarmanninn.
Molina greindi frá því fyrir tveimur mánuðum að franskur landsliðsmaður væri ásakaður um tvær líkamsárásir gegn tveimur konum. Sá maður er Ferland Mendy en Molina birtir gögn því til sönnunar.
Mendy var þá sagður mikill drykkjumaður og að hann hefði ítrekað keyrt próflaus og undir áhrifum áfengis. Þá er hann sagður hafa beitt tvær konur ofbeldi og var önnur árásin flokkuð sem sérstaklega gróf árás. Á hann að hafa berað sig fyrir framan konuna áður en hann kýldi í hana og sparkaði á meðan hún lá í gólfinu á hóteli í Frakklandi.
Atvikin eru sögð hafa átt sér stað er hann var á mála hjá Lyon og vissi félagið af hegðun hans en ákvað að aðhafast ekki frekar þar sem það hafði komist að samkomulagi um að selja hann til Real Madrid sama ár.
„Ég er algerlega sammála þér. Þetta er skandall, svipað og með gaurinn sem kýlir og sparkar í stelpu eftir að hafa sýnt henni typpið á sér," skrifaði Molina undir færslu Ferland.
Totalement d'accord avec toi, c'est scandaleux, comme un gars mettant des coups de poing et de pied à une fille après lui avoir montré son sexe. https://t.co/ioPmmL3vJd
— Romain Molina (@Romain_Molina) November 17, 2021
Athugasemdir