Norski varnarmaðurinn Erik Tobias Sandberg er leikmaður sem hefur verið til skoðunar hjá ÍA undanfarna daga. Hann æfði með liðinu og núna er verið að skoða hvort eigi að semja við hann.
ÍA átti von á því að fá króatískan reynslubolta í varnarlínuna, Marin Ljubicic, en ekkert varð úr því að hann kæmi til félagsins. Samkomulag var í höfn um að hann kæmi um mánaðamótin en hann fékk annað tilboð sem hann tók.
Núna eru Skagamenn að skoða Sandberg en hann er afar áhugaverður leikmaður.
Sandberg er 23 ára gamall og ólst upp hjá Lilleström. Undanfarin ár hefur hann spilað með Jerv sem féll á síðasta ári niður í C-deild í Noregi.
Sandberg lék á sínum tíma 54 yngri landsleiki fyrir Noreg og var stundum með fyrirliðabandið. Þegar nafn hans er skrifað inn í fréttaleit, þá kemur það auðvitað upp að hann sé vinur Erling Haaland en það er líka áhugavert að fyrir átta árum var hann nálægt því að ganga í raðir Arsenal.
„Arsenal vann baráttuna við Manchester United um unglingastjörnuna Erik Tobias Sandberg," segir í fyrirsögn frá The Sun sumarið 2016.
Sandberg endaði hins vegar aldrei á því að fara til Arsenal. Hann lenti í erfiðum meiðslum sem varð til þess að það hægðist á ferli hans. Á heimasíðu Lilleström árið 2021 er talað um „meiðslamartröð" en það er spurning hvort að hann muni koma ferlinum aftur á fulla ferð á Skaganum.
Arsenal have beaten Man Utd to the signature of Norwegian wonderkid Erik Tobias Sandberg. [The Sun] pic.twitter.com/eKgf1iNzTt
— ARSENAL (@tomgunner14) July 20, 2016
Athugasemdir