Í tvo daga leit út fyrir að FH væri á leið í undanúrslit Lengjubikarsins. Það leit þannig út eftir að Víkingur missti þrjú stig fyrir að hafa teflt fram ólöglegum leikmanni í síðustu umferð riðlakeppninnar. Þegar það varð ljóst á mánudag sat FH í 2. sæti riðilsins og á leið í undanúrslitin.
Ekkert verður þó úr því að liðið spili í undanúrslitunum því liðið er á leið í æfingaferð og það verður því Stjarnan sem mun spila við Þór/KA í undanúrslitunum.
Ekkert verður þó úr því að liðið spili í undanúrslitunum því liðið er á leið í æfingaferð og það verður því Stjarnan sem mun spila við Þór/KA í undanúrslitunum.
„Stelpurnar eru að fara út í æfingaferð á föstudaginn og koma aftur heim 28. mars. Við ákváðum að fara í æfingaferð á þessum tímapunkti til að sleppa við landsleikjapásurnar. U17 er búið að spila sína leiki og framundan eru leikir hjá U19 og A-landsliðinu, þau verkefni byrja 30./31. mars. Við settum æfingaferðina okkar þannig upp að okkar leikmenn geta verið í landsliðsverkefnunum," segir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH, við Fótbolta.net.
„Það gerist svo að við fáum að vita að við eigum leik í undanúrslitum Lengjubikarsins á móti Þór/KA. Þór/KA kemur heim úr sinni æfingaferð á morgun held ég. Það hefði því þurft að færa leikinn aftur fyrir okkar æfingaferð, en það gekk ekki upp hjá Þór/KA þar sem þær eru náttúrulega með Söndru Maríu Jessen í A-landsliðinu og leikmenn í U19 landsliðinu. Rétturinn var hjá Þór/KA að segja nei við þeirri tillögu og þá voðalega lítið fyrir okkur að gera, við spilum ekki leikinn á meðan við erum úti í æfingaferð. Því fór sem fór og við þurfum að sætta okkur við að fara ekki í undanúrslitaleikinn."
„Ég held að KSÍ hafi reynt að gera allt sem hægt var að gera til að þessi leikur gæti farið fram. Ég skil að Þór/KA vilji spila þennan leik. Þór/KA valdi æfingaferðina sína út frá Lengjubikarnum, svo það myndi ganga upp. Við ákváðum æfingaferðina okkar út frá landsleikjahléunum. Þetta bara því miður gekk ekki upp, það er mjög pirrandi því við hlökkuðum mjög mikið til að fara í þennan undanúrslitaleik. Við þurfum að sætta okkur við það að fara ekki í hann og nýta þessa æfingaferð mjög vel sem lokaundirbúning fyrir Íslandsmótið," segir Davíð.
Athugasemdir