Fyrstu leikjum dagsins er lokið í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna þar sem Afturelding gerði sér lítið fyrir og sló ríkjandi meistara Víkings R. úr leik.
Hildur Karítas Gunnarsdóttir skoraði eina mark leiksins á áttundu mínútu og gerðu Mosfellingar vel að halda forystunni til leiksloka þrátt fyrir tilraunir Víkinga. Varnarleikur Aftureldingar var til fyrirmyndar og átti Elaina La Macchia stórleik á milli stanganna.
Leikið var í Mosfellsbæ og eru þetta frábær úrslit fyrir Aftureldingu sem leikur í Lengjudeildinni, en Víkingur er í Bestu deildinni. Víkingur kom öllum á óvart í fyrra þegar liðið var í Lengjudeildinni en fór alla leið í úrslitaleik Mjólkurbikarsins og vann Breiðablik þar, auk þess að tryggja sér sæti í efstu deild.
Aftureldingu getur dreymt um að gera slíkt hið sama í ár eftir þennan sigur.
Valur tók þá á móti Fram og gjörsamlega valtaði yfir gestina sína, þar sem hin hæfileikaríka Amanda Jacobsen Andradóttir var atkvæðamest með þrennu.
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir skoraði tvennu í sigrinum og þá komust Katie Cousins, Fanndís Friðriksdóttir og Ísabella Sara Tryggvadóttir einnig á blað.
Afturelding 1 - 0 Víkingur R.
1-0 Hildur Karítas Gunnarsdóttir ('8)
Valur 8 - 0 Fram
1-0 Katherine Amanda Cousins ('15 )
2-0 Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir ('23 )
3-0 Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir ('34 )
4-0 Fanndís Friðriksdóttir ('36 )
5-0 Ísabella Sara Tryggvadóttir ('44 )
6-0 Amanda Jacobsen Andradóttir ('47 )
7-0 Amanda Jacobsen Andradóttir ('69 )
8-0 Amanda Jacobsen Andradóttir ('78 )
Athugasemdir