
„Það er gríðarlega svekkjandi að þetta hafi ekki verið nóg," sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, landsliðskona, eftir 1-1 jafntefli gegn Frakklandi á EM í gær.
Stelpurnar gerðu frábærlega í þessum síðasta leik en því miður var það ekki nóg.
Stelpurnar gerðu frábærlega í þessum síðasta leik en því miður var það ekki nóg.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 1 Frakkland
„Ég er mjög stolt af liðinu. Við gerðum okkar allra besta," segir Sveindís.
„Það er leiðinlegt að við fengum á okkur þetta mark í byrjun. Maður veit ekki hvernig leikurinn hefði spilast ef við hefðum byrjað frá fyrstu sekúndu. Þetta var stöngin út þetta mót. Við búum til okkar eigin heppni og svona er þetta. Stig í þessum leik, ef við hefðum hugsað um það fyrir mót þá hefði það verið geðveikt en það var ekki nóg í þetta skiptið."
Sveindís, sem hefur fengið heimsathygli fyrir frammistöðu sína inn á vellinum, var að leika á sínu fyrsta stórmóti.
„Það er ótrúlega gaman að fá að spila svona mikið og á móti svona sterkum liðum. Við förum taplausar í gegnum þetta, en það er ekki nóg. Þetta var geggjuð reynsla."
Sveindís segist lítið vera að fylgjast með umræðunni um sig. „Alls ekki, ég er voða lítið að skoða þetta. Þetta truflar mig ekki neitt."
Allt viðtalið er hér að ofan en þar ræðir Sveindís til að mynda um næsta verkefni sem er úrslitaleikur við Holland um sæti á HM.
Athugasemdir