Man Utd borgar Sporting bætur - Rafael Leao orðaður við Barcelona - Kerkez á blaði Liverpool
banner
   lau 19. október 2024 18:59
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Fyrirliðinn tryggði Blikum sigurinn - Hreinn úrslitaleikur í lokaumferðinni
Höskuldur tryggði Blikum sigurinn
Höskuldur tryggði Blikum sigurinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heiðar Ægisson jafnaði metin þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir
Heiðar Ægisson jafnaði metin þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur og Breiðablik mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitlinn eftir viku
Víkingur og Breiðablik mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitlinn eftir viku
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Breiðablik 2 - 1 Stjarnan
1-0 Viktor Örn Margeirsson ('64 )
1-1 Heiðar Ægisson ('76 )
2-1 Höskuldur Gunnlaugsson ('87 )
Lestu um leikinn

Breiðablik vann Stjörnuna, 2-1, í næst síðustu umferð Bestu deildar karla á Kópavogsvelli í kvöld. Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson tryggði sigurinn með marki undir lok leiks, en ljóst er að Breiðablik þarf sigur gegn Víkingi í lokaumferðinni til að vinna deildina.

Víkingsliðið vann dramatískan og umdeildan 4-3 sigur á Skagamönnum fyrr í dag og þurftu því Blikar að minnsta kosti að ná í stig í dag.

Blikar byrjuðu ágætlega gegn Stjörnumönnum. Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði liðsins, átti skot sem hafnaði í stönginni, en eftir það fóru Stjörnumenn að ógna.

Guðmundur Baldvin Nökkvason kom boltanum í netið en var dæmdur rangstæður og síðan skapaði hann og Óli Valur Ómarsson tvö góð færi fyrir Emil Atlason, en hann skallaði boltanum framhjá í báðum færunum.

Stjörnumenn héldu áfram að keyra á Blika í þeim síðari. Anton Ari Einarsson var frábær í markinu. Hann varði skalla frá Guðmundi Kristjánssyni og nokkrum mínútum síðar dauðafæri frá Emil.

Þegar tæpur hálftími var til leiksloka kom Viktor Örn Margeirsson Blikum í forystu. Ísak Snær Þorvaldsson átti skalla í slá eftir hornspyrnu og datt boltinn fyrir Viktor sem potaði honum í netið.

Þrettán mínútum eftir markið svöruðu Stjörnumenn. Jón Hrafn Barkarson átti sendingu inn í teiginn á Emil sem náði skotinu, en það var varið. Stjörnumenn vildu fá vítaspyrnu í kjölfarið en Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins, leyfði leiknum að fljóta og sem betur fer fyrir gestina því Heiðar Ægisson fékk boltann við teiginn og hamraði honum í markið.

Emil var nálægt því að koma Stjörnunni yfir aðeins þremur mínútum eftir markið en setti boltann framhjá úr dauðafæri. Heppnin ekki með honum í dag.

Þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma skoraði Höskuldur sigurmarkið. Kristinn Jónsson keyrði upp að endalínu, kom boltanum á Höskuld sem setti hann í varnarmann og í netið.

Lokatölur 2-1 á Kópavogsvelli. Blikar fara upp að hlið Víkings, en Íslandsmeistararnir eru með töluvert betri markatölu. Blikar þurfa því að vinna Víking í lokaumferðinni ef liðið ætlar að verða Íslandsmeistari, en Víkingum dugir stig.

Víkingur og Breiðablik mætast í Víkinni sunnudaginn 27. október en leikurinn hefst klukkan 18:30.
Besta-deild karla - Efri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 27 19 5 3 63 - 31 +32 62
2.    Víkingur R. 27 18 5 4 68 - 33 +35 59
3.    Valur 27 12 8 7 66 - 42 +24 44
4.    Stjarnan 27 12 6 9 51 - 43 +8 42
5.    ÍA 27 11 4 12 49 - 47 +2 37
6.    FH 27 9 7 11 43 - 50 -7 34
Athugasemdir
banner
banner