mið 19. nóvember 2025 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Adeyemi sektaður um 450 þúsund evrur fyrir brot á vopnalögum
Mynd: EPA
Þýski landsliðsmaðurinn Karim Adeyemi hefur verið sektaður um 450 þúsund evrur fyrir brot á vopnalögum.

BILD segir frá því að lögreglan hafi gert hnúajárn og rafstuðsbyssu upptæka á heimili hans og í kjölfarið hafi hann verið kærður fyrir brot á vopnalögum.

Honum var gert að greiða 450 þúsund evrur í sekt, en Adeyemi lýsti sakleysi sínu og að hann hafi fengið þetta í sérstakri leyndardómsgjöf á TikTok.

Adeyemi tilkynnti ekki yfirvöldum um vopnin sem hann hélt fram að hann hafi fengið í gjöf.

Julian Nagelsmann, þjálfari Þjóðverja, segist hafa fengið að vita af þessu eftir leikinn á móti Lúxemborg.

Leikmaðurinn var í hópnum hjá Þjóðverjum í 6-0 stórsigrinum á Slóvakíu en kom ekkert við sögu.

„Ég og Rudi ræddum við hann. Þetta vandamál kom upp og eitthvað sem ég hef ekki beint tíma fyrir þegar stutt er í mikilvægan leik. Við munum fara betur yfir þetta eftir leikinn. Ég mun ekki tjá mig frekar um þetta málefni,“ sagði Nagelsmann í viðtali fyrir leikinn.
Athugasemdir
banner
banner