Ljóst er að Liverpool verður ekki Englandsmeistari um helgina eftir að Arsenal vann 4-0 sigur á Ipswich Town á Portman Road í dag. Manchester United tapaði fimmtán deildarleik sínum á tímabilinu er það laut í lægra haldi fyrir Wolves, 1-0, á Old Trafford á meðan Chelsea vann 2-1 endurkomusigur á Fulham á Craven Cottage.
Arsenal var yfirráðandi í leiknum gegn Ipswich og liðu aðeins tæpar fjórtán mínútur áður en Leandro Trossard kom gestunum yfir með skoti úr miðjum teignum eftir sendingu frá Martin Ödegaard.
Verðskulduð forysta svona miðað við byrjun leiksins og bætti Gabriel Martinelli við öðru stundarfjórðungi síðar er Bukayo Saka kom boltanum inn á teiginn á Mikel Merino sem kom með laglega hælsendingu á fjær á Martinelli sem skoraði af stuttu færi.
Ipswich stimplaði sig algerlega úr leiknum þremur mínútum síðar er Leif Davis steig groddalega aftan á Bukayo Saka og uppskar rautt spjald fyrir.
Saka fékk tvö frábær færi til að bæta við forystu Arsenal en tókst ekki að nýta þau.
Arsenal byrjaði síðari hálfleikinn eins og þann fyrri, en var nálægt því að missa forystuna niður í eitt mark er George Hirst fékk sendinguna inn fyrir en skotið hans rétt framhjá. Mark sem hefði gefið Ipswich einhverja von.
Vonir Ipswich-manna um að koma til baka voru endanlega úr sögunni á 69. mínútu. Trossard gerði annað mark sitt eftir stutta hornspyrnu. Declan Rice tók hornspyrnuna stutt og fékk hann aftur áður en hann sendi boltann á Trossard sem stóð einn og óvaldaður í teignum áður en hann skaut boltanum í fjærhornið.
Undir lok leiks skoraði varamaðurinn Ethan Nwaneri fjórða og síðasta mark Arsenal. Skot hans fór af tveimur leikmönnum Ipswich áður en hann fór í netið. Flott frammistaða hjá Arsenal sem er áfram í 2. sæti með 66 stig, tíu stigum frá toppliði Liverpool. en Ipswich með 21 stig í 18. sæti og blasir nú fall við nýliðunum.
Endurkomusigur hjá Chelsea
Chelsea vann frábæran 2-1 endurkomusigur á Fulham á Craven Cottage, en bæði mörk Chelsea komu undir lok leiksins.
Fulham var betra liðið gegn Chelsea í fyrri hálfleiknum.
Andreas Pereira kom boltanum í netið á 3. mínútu en markið tekið af honum vegna rangstöðu. Chelsea var í mestu vandræðum með hápressu Fulham og náði ekki að skapa sér nóg.
Þegar tuttugu mínútur voru liðnar kom Alex Iwobi heimamönnum yfir. Chelsea var að ná betri tökum á leiknum þegar Reece James tapaði boltanum. Ryan Sessegnon keyrði upp vinstri vænginn og kom honum fyrir á Iwobi sem skoraði með góðu skoti neðst í fjærhornið.
Chelsea byrjaði síðari hálfleikinn vel og átti Pedro Neto að jafna metin eftir að hann fékk sendingu frá Nicolas Jackson, en Bernd Leno gerði sig breiðan og varði frá honum.
Cole Palmer, sem var óstöðvandi fyrir áramót, hefur verið arfaslakur undanfarna mánuði og var það svolítið lýsandi þegar hann keyrði í átt að teig Fulham og setti boltann langt framhjá. Hlutirnir ekki alveg að klikka hjá honum,
Síðustu mínútur leiksins pressaði Chelsea heimamenn hátt uppi og kom jöfnunarmarkið á endanum. Hinn 19 ára gamli Tyrique George skoraði það sex mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður.
Boltanum var hreinsað út við vítateigslínu á George sem tók viðstöðulaust skot neðst í vinstra hornið. Frábær tímapunktur til að skora fyrsta deildarmarkið.
Þetta var það sem Chelsea þurfti því í uppbótartíma gerði Pedro Neto sigurmarkið. Palmer fann Enzo Fernandez hægra megin við teiginn sem kom honum strax inn á Neto. Hann tók 180 gráðu snúning áður en hann hamraði boltanum í netið.
Ótrúlega mikilvægt mark sem kom Chelsea upp í 5. sæti deildarinnar með 57 stig á meðan Fulham er í 9. sæti með 48 stig og nú búið að skrá sig úr Meistaradeildarbaráttu.
Fimmtánda tap Man Utd
Manchester United tapaði á móti Wolves, 1-0, á Old Trafford. Ruben Amorim gerði nokkrar breytingar á liðinu og setti meðal annars fyrirliðann Bruno Fernandes á bekkinn.
Það vantaði alla sköpunargáfu í lið United. Rasmus Höjlund var fremstur en kom lítið við sögu. Hann snerti boltann aðeins átta sinnum á þessum 45 mínútur.
Rólegt yfir þessu og liðin ekki að skapa neina stórkostlega hættu fyrir framan markið. Það kom því lítið á óvart að staðan hafi verið markalaus þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.
Amorim gerði þrefalda breytingu eftir klukkutímaleik. Fernandes, Mason Mount og Diogo Dalot komu inn fyrir Kobbie Mainoo, Manuel Ugarte og Patrick Dorgu.
Portúgalinn tók síðan Höjlund af velli þegar tuttugu mínútur voru eftir og setti hinn efnilega Chido Obi Martin inn á. Enn ein slaka frammistaðan frá Höjlund, sem hefur alls ekki tekist að koma sér á skrið á tímabilinu.
Fernandes var líflegur eftir að hann kom inn á og var allt í öllu í sóknarleiknum en gat bara ekki fundið netmöskvana. United fékk blauta tusku í andlitið á 77. mínútu.
Spænski vængmaðurinn Pablo Sarabia kom inn af bekknum nokkrum mínútum áður og skoraði síðan með frábæru aukaspyrnumarki, yfir vegginn og í netið. Ómögulegt fyrir André Onana að verja þetta skot.
Man Utd komst ekki til baka og var þetta í fyrsta sinn síðan tímabilið 1979-1980 sem Wolves vinnur tvöfalt gegn United á tímabilinu. Liðin eru nú jöfn að stigum í 14. og 15. sæti með 38 stig.
Fulham 1 - 2 Chelsea
1-0 Alex Iwobi ('20 )
1-1 Tyrique George ('83 )
1-2 Pedro Neto ('90 )
Ipswich Town 0 - 4 Arsenal
0-1 Leandro Trossard ('14 )
0-2 Gabriel Martinelli ('28 )
0-3 Leandro Trossard ('69 )
0-4 Ethan Nwaneri ('88 )
Rautt spjald: Leif Davis, Ipswich Town ('32)
Manchester Utd 0 - 1 Wolves
0-1 Pablo Sarabia ('77 )
Athugasemdir