
„Ég er nú kannski ekki alveg sammála því. Mér fannst við vera aðeins á autopilot í þessum leik. Ekkert sérstakur leikur af okkar hálfu," sagði Davíð Smári, þjálfari Kórdrengja eftir sigur á KV í 3.umferð Lengjudeildarinnar.
Lestu um leikinn: Kórdrengir 2 - 0 KV
„Við áttum fleiri færi en þeir í leiknum og nýttum þau betur. Heilt yfir 50/50 leikur. Mér fannst þeir bara góðir og kraftmiklir. Mér fannst við taka leikinn svolítið á autopilot og við höfum ekki efni á að gera það oft í sumar," sagði Davíð Smári.
„Ég tók smá ræðu inni í klefa, við þurfum meira og ég ætla að endurtaka það að við höfum ekki efni á því að taka fleiri leiki á autopilot. Okkur hefði alveg getað verið refsað í dag. Það gerðist ekki. Það er gott að fá svona leiki þar sem þessir hlutir eru svona. Þá getur maður farið og unnið í þeim og lagað þá og passað upp að þetta komi ekki fyrir aftur. Það er það sem við munum gera bara strax á morgunn á æfingu," sagði Davíð Smári.
Davíð bætti við að spilamennska sinna manna með boltann hefði getað verið betri. Einnig bætti hann við að varnarlega hefðu þeir mátt vera nær KV mönnum. Hann talaði einnig um að það hafi verið svæði fyrir framan vörn KV sem var illa fyllt varnarlega af sínum mönnum.