Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
   þri 20. október 2020 12:30
Magnús Már Einarsson
Miðverðirnir ungu sem gætu fengið tækifæri hjá Liverpool
Rhys Williams.
Rhys Williams.
Mynd: Getty Images
Sepp van den Berg (til vinstri).
Sepp van den Berg (til vinstri).
Mynd: Getty Images
Ólíklegt er að Virgil van Dijk spili meira með Liverpool á þessu tímabili vegna meiðsla á hné. Liverpool seldi Dejan Lovren í sumar og því eru Joel Matip og Joe Gomez einu reyndu miðverðirnir í aðalliði félagsins í dag. Brasilíski miðjumaðurinn Fabinho getur einnig leikið í hjarta varnarinnar.

Ekki er ólíklegt að Liverpool bæti miðverði við hópinn í janúar en fram að því eru 17 leikir. Fjórir yngri leikmenn gætu fengið tækifæri ef meiðsli koma upp í vörninni á næstu vikum og Sky Sports birti grein um þá í dag.

Rhys Williams - 19 ára
Rhys Williams er líklega næstur í röðinni hjá Jurgen Klopp. Williams spilaði sinn fyrsta mótsleik í 7-2 sigri á Lincoln í enska deildabikarnum í síðasta mánuði og hann spilaði aftur gegn Arsenal í sömu keppni. William var í unglingaliði Liverpool sem varð bikarmeistari 2019 en hann gerði nýjan fimm ára samning við ensku meistarana í ár. Á dögunum lék hann sinn fyrsta leik með U21 liði Englands.

Sepp Van Den Berg - 18 ára
Liverpool keypti Sepp Van Den Berg frá hollenska félaginu Zwolle á 1,3 milljónir punda sumarið 2019. Á síðasta tímabili spilaði hann fjóra leiki með aðalliði Liverpool í enska bikarnum og deildabikarnum. Van Den Berg þykir mikið efni en Bayern Munchen sýndi honum einnig áhuga áður en Liverpool keypti hann. Van Den Berg spilaði 22 leiki með Zwolle í hollensku úrvalsdeildinni áður en hann kom til Englands.

Nathaniel Phillips - 23 ára
Phillips er eldri en hinir varnarmennirnir sem eru næstir í röðinni. Á síðasta tímabili var Phillips í láni hjá Stuttgart í þýsku B-deildinni en þegar meiðslavandræði voru hjá Liverpool í janúar hoppaði hann til Englands og spilaði allan leikinn í sigri á Everton í enska bikarnum. Middlesbrough, Nottingham Forest og Swansea sýndu áhuga á að fá Phillips á láni á dögunum en hann fór ekki fet. Phillips mun nú reyna að vinna sér sæti í hópnum hjá Liverpool.

Billy Koumetio - 17 ára
Billy skrifaði undir sinn fyrsta atvinnumannasamning í ágúst og hann sýndi góða takta í æfingaferð Liverpool fyrir tímabilið. Billy lenti hins vegar í meiri vandræðum í æfingaleik gegn Blackpool rétt fyrir tímabil. Blackpool komst í 2-0 í fyrri hálfleik og Billy var tekinn af velli í leikhléi. Billy er einungis 17 ára og Jurgen Klopp hefur trú á að hann geti náð langt í framtíðinni.
Athugasemdir
banner
banner