Elísabet Gunnarsdóttir stýrði sínum fyrsta landsleik með Belgíu í kvöld er liðið heimsótti heimsmeistaralið Spánverja í Valencia í kvöld en liðið var aðeins fáeinum mínútum frá því að vinna sögulegan sigur í Þjóðadeildinni.
Beta tók við belgíska landsliðinu á dögunum eftir að hafa áður stýrt Kristianstad, Val og ÍBV.
Hún stökk beint í djúpu laugina með belgíska liðið en andstæðingurinn var allra besta lið heims, Spánn, sem vann HM árið 2023.
Abdulai Toloba kom Belgum óvænt í forystu á 18. mínútu og þegar tuttugu mínútur voru eftir skoraði Tessa Wullaert annað markið eftir stoðsendingu Toloba.
Belgar höfðu aldrei áður unnið Spánverja og stefndi allt í að þetta yrði fyrsti sigurinn, en spænska liðið sem átti ótrúleg 35 tilraunir í leiknum, nýtti færin þegar allt var undir. Liðið hennar Betu var að spila 5-4-1 leikkerfið með hálfgerða lágvörn, enda að spila gegn besta landsliði heims.
Claudia Pina minnkaði muninn á 77. mínútu en það gekk þó erfiðlega að ná inn jöfnunarmarki.
Á annarri mínútu í uppbótartíma kom það er Lucia Garcia skoraði með skoti af stuttu færi eftir einfalda sókn. Þremur mínútum síðar gerði Martin-Prieto sigurmarkið með skoti á fjær eftir mikinn darraðardans í teignum.
Engu að síður var þetta hetjuleg frammistaða hjá Betu og stöllum hennar í Belgíu og lofar framhaldið góðu.
A cruel end but incredibly spirited performance from Belgium in Elísabet Gunnarsdóttir's first match in charge, as they've conceded twice in stoppage-time to lose to the world champions. #ESPBEL
— Neel Shelat (@ShelatNeel) February 21, 2025
Athugasemdir