Juventus og FC Porto eru búin að skipta á bakvörðum þar sem Alberto Costa fer til Porto á meðan Joao Mario fer hina leiðina.
Porto borgar 15 milljónir evra til að kaupa Costa frá Juventus á meðan Juve borgar 13 milljónir fyrir Joao Mario.
Þeir eru báðir portúgalskir, Costa er 21 árs og kom við sögu í tíu leikjum með Juve á seinni hluta síðustu leiktíðar. Hann var mikilvægur hlekkur í liðinu á HM félagsliða í sumar þar sem hann gaf tvær stoðsendingar í fjórum leikjum en tókst ekki að koma í veg fyrir tap gegn Real Madrid í 16-liða úrslitum.
Joao Mario er 25 ára og spilaði 39 leiki með Porto á síðustu leiktíð, auk þriggja leikja í riðlakeppni HM félagsliða. Mario var byrjunarliðsmaður hjá Porto en mun núna berjast við Nicoló Savona um byrjunarliðssæti á Ítalíu.
Þeir gera báðir fimm ára samninga við nýju félögin sín.
Athugasemdir