Manchester United lagði West Ham að velli, 2-1, í sumarseríu ensku úrvalsdeildarinnar í New Jersey í Bandaríkjunum í nótt.
United var að spila annan leik sinn á undirbúningstímabilinu eftir að hafa gert markalaust jafntefli við Leeds í Svíþjóð síðustu helgi en nú var komið að fyrsta sigrinum.
Rasmus Höjlund skaut í stöngina snemma leiks eftir að hafa sloppið í gegn áður en United fékk vítaspyrnu eftir skelfilegan misskilning milli El Hadji Malick Diouf og Alphonse Areola sem varð til þess að markvörðurinn braut á Ayden Heaven í teignum.
Bruno Fernandes skoraði úr vítaspyrnunni sem kom á 5. mínútu leiksins.
United var með öll tök á leiknum og hálf ótrúlegt að liðið hafi ekki farið með stærri forystu inn í hálfleikinn. Höjlund fór illa með gott færi og þá skoraði Amad Diallo mark sem var dæmt af vegna rangstöðu.
Bruno skoraði annað mark sitt á 52. mínútu leiksins með laglegu skoti fyrir utan teig í vinstra hornið og ellefu mínútum síðar minnkaði Jarrod Bowen með góðu skoti hægra megin úr teignum.
West Ham sótti aðeins í sig veðrið í seinni hlutanum en Altay Bayindir varði allt sem kom í áttina að honum og lokatölur því 2-1 fyrir Man Utd.
West Ham mætir Everton á Soldier-leikvanginum í Chicago eftir fjóra daga en þremur tímum síðar eigast Man Utd og Bournemouth við á sama velli.
Athugasemdir