Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greinir frá því að sádi-arabíska stórveldið Al-Nassr sé að gera tilraun til að stela Joao Félix undan nefinu á Benfica.
Portúgalska stórveldið hefur verið í viðræðum við Chelsea um að fá Félix aftur í sínar raðir eftir slakt gengi í enska boltanum og þeim ítalska.
Al-Nassr virðist vera tilbúið til að bjóða leikmanninum talsvert betri kjör heldur en hann getur fengið hjá Benfica og þá er félagið nú þegar búið að leggja fram kauptilboð til Chelsea.
Romano segir að viðræður séu komnar langt á veg og að Félix gæti flogið í læknisskoðun á næstu dögum.
Félix er 25 ára sóknartengiliður sem hefur átt erfitt uppdráttar frá því að hann yfirgaf Benfica sumarið 2019, þegar hann var ekki ennþá búinn að eiga tvítugsafmæli. Hann hefur þrátt fyrir það skorað 9 mörk í 45 A-landsleikjum með Portúgal og leikið fyrir stórveldin Atlético Madrid, Barcelona, Chelsea og AC Milan.
Félix er með sex ár eftir af samningi sínum við Chelsea, sem keypti hann úr röðum Atlético fyrir tæplega 50 milljónir punda.
Talið er að Chelsea sé reiðubúið til að samþykkja tilboð sem hljóða upp á 35 til 40 milljónir.
Benfica reyndi að kaupa helmingshlut í Félix fyrir tæplega 20 milljónir punda en án árangurs.
26.07.2025 14:45
Benfica ætlar að fá Joao Felix aftur heim
Athugasemdir