Yfirvofandi sala Liverpool á kólumbíska leikmanninum Luis Díaz til Bayern München mun hefja keðjuverkun sem gæti fært Alexander Isak nær Englandsmeisturunum.
Það hefur verið rætt og ritað um áhuga Liverpool á Isak síðustu vikur og hefur sá áhugi magnast síðustu daga og sérstaklega eftir að Isak tjáði Newcastle að hann vilji skoða það að fara annað.
Sænski landsliðsmaðurinn fór ekki með Newcastle í æfingaferð liðsins til Asíu og hefur Eddie Howe, stjóri félagsins, útilokað þann möguleika að hann komi til móts við hópinn í Suður-Kóreu.
Liverpool hefur ekki enn lagt fram formlegt tilboð í Isak, en það gæti breyst á næstu dögum. Félagið er að selja Luis Díaz til Bayern München fyrir 65,5 milljónir punda og er gert ráð fyrir að hann klári læknisskoðun á morgun áður en hann verður kynntur hjá þýska félaginu.
Þau skipti munu setja áhuga Liverpool á Isak á næsta stig því þá er komið fjármagn til þess að leggja fram tilboð. Craig Hope hjá Daily Mail segir að salan á Díaz geri það að verkum að tilboð í Isak sé aðeins formsatriði.
Það er ekki það eina sem þarf að gerast í þessum kapal því allt veltur þetta á því sem Newcastle gerir á markaðnum og hvort að félagið breyti afstöðu sinni þegar það kemur að Isak en hingað til hefur svarið verið að hann sé ekki til sölu þó að það hafi að vísu sett 150 milljóna punda verðmiða á hann á síðasta ári.
Ekki eru miklar líkur á að Newcastle láti Isak af hendi áður en það finnur arftaka hans og mun það reynast erfitt enda framherjamarkaðurinn takmarkaður þetta sumarið.
Aðalskotmark Newcastle, Hugo Ekitike, endaði á að fara til Liverpool, og er félagið nú búið að setja þá Benjamin Sesko, Jörgen Strand Larsen og Ollie Watkins á óskalistann.
Sesko, sem er á mála hjá Leipzig, er efstur á blaði, en Newcastle mun fá samkeppni frá Manchester United. Staðarmiðlarnir í Leipzig halda því fram að Sesko vilji frekar fara til Man Utd en Newcastle.
Strand Larsen var bara formlega keyptur til Wolves í sumar fyrir 23 milljónir punda frá Celta Vigo eftir vel heppnaða lánsdvöl og óvist að félagið sé reiðubúið að selja hann og þá vill Aston Villa að minnsta kosti 60 milljónir fyrir Watkins.
Stuðningsmenn Newcastle eru líklega svartsýnir á útlitið á þessari stundu en þó skal hafa í huga að Yasir Al-Rumayyan, stjórnarformaður félagsins, hefur verið mjög skýr með að hann vilji ekki selja Isak og hefur ráðlagt stjórninni að gera allt sem hún getur til þess að halda honum áfram.
Samningaviðræður Newcastle við Isak hafa setið á hakanum og er talið að Isak vilji 300 þúsund pund í vikulaun sem myndi skapa vandamál fyrir Newcastle þegar kemur að fjárhagsreglum UEFA og ensku úrvalsdeildarinnar.
Stuðningsmenn beggja liða þurfa þó að bíða í einhvern tíma eftir endanlegri niðurstöðu og sérstaklega þegar háar fjárhæðir eru í spilinu, en það ættu þó að koma einhverjar fréttir af stöðunni í vikunni og verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála.
Athugasemdir