Manchester-liðin sýna Donnarumma áhuga - Arsenal vill klára kaupin á Eze - Fofana til Everton?
   sun 27. júlí 2025 08:40
Ívan Guðjón Baldursson
Börsungar draga sig í hlé á leikmannamarkaðinum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Joan Laporta forseti Barcelona segir að félagið sé búið að kaupa inn alla leikmenn sem þarf fyrir komandi tímabil.

Barca er búið að næla sér í kantmennina Roony Bardghji og Marcus Rashford auk markvarðarins Joan García. Á sama tíma er félagið búið að selja Pablo Torre, Álex Valle og Pau Víctor auk þess að lána Ansu Fati út.

Spánarmeistararnir fara því inn í næsta tímabil með mjög svipaðan leikmannahóp og á síðustu leiktíð.

„Við búumst ekki við að kaupa fleiri leikmenn í sumar. Við erum með góðan hóp og þjálfarinn vill nota leikmenn úr akademíunni til að styrkja liðið frekar ef þess þarf," sagði Laporta við Mundo Deportivo.

Lykilmenn Börsunga hafa verið að skrifa undir nýja samninga við félagið og er Jules Koundé líklega næstur. Varnarmaðurinn öflugi er að gera fimm ára samning við stórveldið en hann hefur hingað til spilað 141 leik á þremur árum í Barcelona.

Markvörðurinn Marc-André ter Stegen ætlar einnig að vera áfram hjá félaginu. Hann er að gangast undir aðgerð sem mun halda honum frá keppni í um þrjá mánuði. Þegar hann kemur til baka mun hann þurfa að berjast við Wojciech Szczesny og Joan García um markmannsstöðuna, en Inaki Pena er einnig í hóp og gæti verið seldur.

Hansi Flick hefur verið að gera frábæra hluti við stjórnvölinn hjá Barcelona og er með tvö ár eftir af samningi sínum þar.
Athugasemdir
banner
banner
banner