Manchester-liðin sýna Donnarumma áhuga - Arsenal vill klára kaupin á Eze - Fofana til Everton?
   sun 27. júlí 2025 15:00
Brynjar Ingi Erluson
Þjálfari Dortmund við Cole Campbell: Of góður til að spila með varaliðinu
Mynd: Borussia Dortmund
Bandaríski-íslenski sóknarmaðurinn Cole Campbell mun líklega yfirgefa Borussia Dortmund áður en sumarglugginn lokar en þetta segir Sky í Þýskalandi.

Síðustu daga hefur Stuttgart átt í viðræðum við Dortmund um kaup á Cole, sem var á mála hjá FH og Breiðabliki hér heima og á leiki að baki með yngri landsliðum Íslands.

Niko Kovac, þjálfari Dortmund, hefur samkvæmt FunkeSport ráðlagt Cole að halda annað í leit að meiri spiltíma. Hann sagði leikmanninum að hann væri allt of góður til að spila með varaliði Dortmund, en á sama tíma væri hann ekki með pláss fyrir hann í aðalliðinu.

Sky segir frá því að Cole átti að mæta í frammistöðumat hjá Dortmund í gær en hann hafi ekki mætt. Það tengist ekki mögulegum félagaskiptum hans til Stuttgart heldur er hann að glíma við veikindi.

Hann fékk matareitrun og gat því ekki flogið en ef allt gengur að óskum mun hann mæta til Dortmund í dag.

Framtíð hans mun ráðast á næstu vikum en Sky heldur því fram að Cole hafi náð samkomulagi við Stuttgart um fimm ára samning. Stuttgart er reiðubúið að greiða 7 milljónir evra fyrir hann.

Cole, sem er 19 ára gamall, hefur spilað sex leiki með aðalliði Dortmund og er í miklum metum þar, en ef hann verður seldur mun Dortmund setja endurkaupsrétt inn í samninginn.
Athugasemdir
banner