„Við eigum öfluga stuðningsmenn, þá bestu á landinu. Þeir munu koma ykkur á óvart, hversu háværir og kröftugir þeir eru í stuðningi sínum," sagði Michael Præst, fyrirliði Stjörnunnar, við skoska blaðamenn á fréttamannafundi í dag.
Celtic leiðir 2-0 fyrir seinni leikinn sem verður í Garðabænum á morgun. Præst talaði um að stuðningsmannasveit Stjörnunnar, Silfurskeiðin, gæti reynst vopn þegar kemur að því að vinna upp þennan mun.
„Þið fáið að kynnast því hversu öflugir 1.000 stuðningsmenn geta verið," sagði Præst.
Þá telur fyrirliðinn að afar mikilvægt sé að loka á norska landsliðsmiðjumanninn Stefan Johansen hjá Celtic. Hann var bestur í fyrri leiknum á Celtic Park.
„Okkur verður að takast að stöðva hann. Við gerðum það stóran hluta fyrri leiksins en það er mjög erfitt að halda aftan af svona gæðaleikmönnum. Hann þarf bara að fá pláss til að eiga eina sendingu eða fá eitt færi og okkur er refsað."
Stjarnan hefur ekki staðið undir væntingum í Pepsi-deildinni en Præst telur að spilamennskan hafi batnað mikið og liðið sé ekki eins brothætt.
„Góð úrslit í þessum leik gegn Celtic gætu gert gæfumuninn fyrir okkur á tímabilinu. Það er okkur líka nauðsynlegt því við megum engan tíma missa í að komast á beinu brautina," sagði Præst.
Leikur Stjörnunnar og Celtic á morgun hefst 19:15 og verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir